141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það væri áhugavert að halda áfram með þær umræður sem fóru fram milli þeirra hv. þingmanna sem töluðu hér síðast. Kannski geri ég það í seinni hluta ræðu minnar.

Ég vil byrja á því að segja að það er mjög sérkennilegt að enn eina ferðina skuli vera komið fram með fiskveiðistjórnarfrumvarp, í þriðja sinn, á síðustu klukkutímum þingsins. Það er ekki hægt að segja vikum, það er nánast verið að mæla fyrir málinu á klukkutímum því að það á eftir að fara í nefnd og fá efnislega umfjöllun. Þetta er mjög sérstakt. Auðvitað er líka mjög sérstakt, að minnsta kosti að mínu mati, að menn skyldu ekki hafa nýtt það tækifæri sem þeir höfðu eftir skipan fyrstu nefndarinnar, sáttanefndar eða samráðshóps eða hvað menn vilja kalla hópinn sem hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson stýrði og hv. þm. Björn Valur Gíslason var varaformaður í. Þar var fullt af efniviði til að halda áfram með málið og reyna að þróa það í þá veru sem hefði verið skynsamlegt. Þá hefði kannski verið hægt að segja, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði hér áðan, að tekið hefði verið tillit til allra þátta. Það fannst manni. Þetta var mjög sérstakt tækifæri að því leyti að að því stóðu allir stjórnmálaflokkar plús öll hagsmunasamtök þó að skoðanir væru mismunandi og sérbókanir. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að Landssamband smábátaeigenda, LÍÚ og sveitarfélögin og allir hefðu skrifað undir samkomulag eða svona ákveðna sýn þó að þau væru með sérbókanir.

Hvað snýr að þessu frumvarpi þá er maður auðvitað hugsi yfir því vegna þess að manni finnst að við ættum að vera að ræða hér önnur mál, þ.e. þau vandamál sem blasa við, þau verkefni sem þingið ætti að standa frammi fyrir núna, hvort heldur sem það snýr að skuldamálum heimilanna og fyrirtækjanna eða stöðunni í heilbrigðismálum, í löggæslunni, ríkisfjármálum, minni hagvexti o.s.frv. Það eru þau brýnu verkefni sem við ættum að vera að ræða. En fyrst þetta mál er á dagskrá verður maður auðvitað að ræða það.

Í andsvörum hér áðan við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur kom ég inn á ástandið í umhverfinu. Mér finnst umræðan alltaf snúast um það hvort lítill bátur eigi að veiða fiskinn, stór bátur, rauður bátur, blár bátur, frambyggður eða afturbyggður. Það er hins vegar ekki stærsta vandamálið í sjávarútvegi og hefur ekki verið. Aðalatriðið er að það er aldrei verið að ræða þann stóra þátt sem snýr til að mynda að markaðsmálum. Það er þáttur sem þarf auðvitað að rækja miklu betur en hefur verið gert, það er bara þannig. Umræðan er alltaf frasakennd. Svo tala menn um hagræðingu í greininni og þá gleymist alltaf að tala um — hvað? Það hefur fækkað í greininni, sjómönnum hefur fækkað, fiskvinnslufólki hefur fækkað. Af hverju skyldi það vera? Aðalástæðan er auðvitað sú að það er búið að skera niður aflaheimildir og það er búin að vera tækniþróun. Það er aðalástæðan fyrir því. Síðan eru menn alltaf með einhverja frasa út og suður sem ekkert innihald er fyrir.

Við skulum ekki gleyma, og það er ágætt að rifja það upp, að pólitíkin og þingið á hverjum tíma hefur með ákvörðunum og pólitísku handafli fært til innan kerfisins í áratugi. (Gripið fram í.) Væri ekki ágætt að staldra aðeins við það? Stöldrum aðeins við það. Ég hef oft gagnrýnt það sem sumir hafa gert. Það hefur haft þær afleiðingar meðal annars að búið er að færa fullt af hlutdeild úr aflamarkskerfinu yfir í krókaaflamarkskerfið. Það er staðreynd. Það hefur verið gert með pólitísku handafli til þess að verjast þeim aðstæðum sem hafa komið upp. Út frá því hafa verið ákveðnar hliðarverkanir sem snúa að svokölluðum vertíðarflota. Hann hefur verið að dala á sama tíma og við höfum verið að byggja upp hinn flotann. Við skulum bara tala hreinskilnislega um það.

Þegar maður fer að velta fyrir sér því sem lagt er til hér þá öskrar margt á mann í þessu frumvarpi sem maður vill ræða mikið efnislega en hefur ekki tíma til í stuttum ræðum. Af hverju? Ég skil að mörgu leyti hugsunina sem býr að baki. Ef menn vilja ná sátt um ákveðna aflaaukningu í tiltekinni tegund, eins og í þessu tilfelli 240 þús. tonn af þorski, hlýtur meðaltalsveiði að vera reiknuð út aftur í tímann. Síðan er sagt: Þetta er ákveðið meðaltal og þegar fer að flæða upp fyrir það viljum við fara að skipta því með einum eða öðrum hætti. Það eru ákveðin rök, ég er ekki alveg sammála þessu en látum það liggja milli hluta. Væri þá ekki hægt að taka umræðuna eitthvað dýpra því að hún er yfirleitt alltaf á yfirborðinu?

Ég var í andsvörum við einn þingmann áðan út af Norðvesturkjördæmi þar sem þorskurinn er mjög sterkur í þeim grunnstoðum sem menn veiða þar, bolfiskvinnslunni. Það er ekki þannig á Austfjörðum, þar er því öfugt farið. Hvað er til dæmis að gerast núna í bolfiskveiðum og vinnslunni í Norðvesturkjördæmi? Hvað er að gerast þar? Það er jú verið að auka þorskkvótann, minnka ýsukvótann og markaðsmálin dala þar á meðan verð á mjöli er í sögulegu hámarki. Við fengum þau gleðilegu tíðindi í gær að verið var að bæta 120 þús. tonnum til viðbótar við loðnukvótann. Öll fögnum við því. Upprunalegi kvótinn var 300 þús. tonn, síðan var búið að bæta við 150 þús. tonnum og nú 120 þús. tonnum þannig að það stefnir í eina bestu vertíð í mjög langan tíma. Jafnvel sambærilega og var í fyrra.

Hvað er búið að sýna fram á með veiðigjaldafrumvarpinu og afleiðingum þess? Veiðigjaldið leggst mjög mismunandi á útgerðarflokka. Þeir sem eru til að mynda í uppsjávargeiranum borga miklu lægra verð miðað við útflutningsverðmæti en þeir sem eru í öðrum tegundum, eins og bolfiski og því sem snýr að grálúðu, og þeir sem eru að frysta um borð. Hér er enn gengið sömu leið. Það er eins og það sé ekki til nema eitt stykki þorskur sem á að borga upp allar bætur, hvernig sem það er gert, og líka þegar skerðingar eru. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Það sama er ekki gert með hinar tegundirnar. Þá hefði maður getað tekið málefnalega umræðu að mínu mati um það ef menn ætluðu að taka meðaltalsveiði af hverri tegund fyrir sig sem væri úthlutað. Þá færu menn yfir í leigupottinn og tillit væri líka tekið til þess hvernig staðan á úthlutuðu aflamarki í samsetningu og tegundum væri. Það er ekki verið að gera það, nei, það er ekki verið að því, því sama skal haldið áfram.

Það er mjög merkilegt sem kemur fram og snýr að Norðvesturkjördæmi, svo að ég haldi mér bara þar til að byrja með. Gengið er fram með þeim hætti að þar eru skerðingarnar hvað mestar ef við tökum línuívilnanir, byggðapottana og þar fram eftir götunum. Þetta finnst mér vera umhugsunarefni fyrir hv. stjórnarliða. Þeir halda því fram að þetta muni styrkja hinar veiku byggðir en mín skoðun er að þetta muni veikja þær. Það er alveg klárt.

Við skulum rifja upp strandveiðarnar. Hvernig eru þær? Þær voru til þess að jafna aðganginn. Þá spyr maður sig: Hvaða réttlæti er í því að þeir sem búa á Vestfjörðum fái að róa fjóra daga en þeir sem búa fyrir norðan Horn megi róa 20 daga, fimm sinnum fleiri daga? Aflatölur og fiskirí á bátunum þar sýna að þeir fiska auðvitað helmingi meira en hinir. Það er bara vegna þess að þeir hafa aðgang að miðunum, þ.e. þeir mega róa fleiri daga. Það er samspil á milli daganna og þess sem veitt er af því að það er hámarksveiði á dag. Nei, enn skal gengið sama veg. Maður er auðvitað brenndur af því sem snýr að ráðherraræði í frumvarpinu. Við vitum hvað gerðist í strandveiðunum þegar hæstv. þáverandi ráðherra færði bara línuna eins og honum datt í hug. Hann færði línuna eftir eitt ár. Hann tók ákvörðun um það einn og sér, það er málið.

Margt er alveg hreint með ólíkindum sem snýr að þessu máli. Ef maður tekur mið af því sem stendur í frumvarpinu og hvernig eigi að túlka það þá tel ég mjög mikið umhugsunarefni fyrir okkur öll að í lagatexta þessa frumvarps skuli standa, þegar fjallað er um hlutdeildirnar sem fara í pott 2, með leyfi forseta:

„Heimilt er að takmarka úthlutun við aðila á svæðum sem hallað hefur á í atvinnu- og byggðalegu tilliti.“

Hljómar vel. Svo kemur til viðbótar:

„Heimilt er að taka tillit til aldurs umsækjenda auk reynslu af sjómennsku og útgerð á viðkomandi svæði.“

Er ekki umhugsunarefni fyrir okkur að það skuli standa í lagafrumvarpi að hæstv. ráðherra geti tekið tillit til aldurs? Það sem mér fannst vanta inn í þetta var „til kyns“ [Hlátur í þingsal.] vegna þess að ríkisstjórnin er alltaf að tala um kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn. Af hverju er ekki nefnt að hér verði jafn aðgangur kynja? Það er algjörlega fáránlegt að ætla að hafa svona heimild í lögum, það er galið, eintóm vitleysa.

Síðar stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að binda nýtingu aflahlutdeildar samkvæmt þessari grein nánari skilyrðum, m.a. um forkaupsrétt ráðherra við endursölu á aflahlutdeildunum, innan ákveðins tíma …“

Það hefði kannski verið umhugsunarvert að segja „forkaupsrétt ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs“. Það er eins og menn séu bara einir. Þetta hefur ekkert með núverandi ráðherra að gera, ráðherrar koma og fara, sem betur fer getur maður auðvitað sagt núna. Það gefur augaleið að það er umhugsunarefni að hafa þetta í frumvarpinu.

Til viðbótar vil ég koma að því sem ég talaði um áðan, hvernig aflamarkinu er skipt þegar menn fara upp fyrir ákveðna tölu. Þá er skerðingin með þeim hætti að áfram eru fjórar tegundir skertar meira, þ.e. þorskur, ufsi, ýsa og steinbítur. Síðan komu hinar tegundirnar inn. Það er byrjað með 5,3% skerðingu og endað með 7% skerðingu 2015/2016 á öðrum tegundum sem koma inn í svokallaða potta á kvótaþingi. Ég skal vera sanngjarn. Þetta hefur þó gengið í rétta átt á undanförnum árum, því er ekki hægt að neita, því að það var algjörlega óþolandi og ólíðandi að einungis fjórar fisktegundir skyldu vera teknar inn í skerðingarpotta. Þá blasir þessi spurning við: Af hverju er ekki sama skerðingarhlutfall í öllum tegundum? Hver eru rökin fyrir því? Ég get ekki fundið í þessu frumvarpi eða í greinargerðinni af hverju svo er ekki. Það á auðvitað að vera sama skerðingin á öllum hlutdeildum. Annað er ekki sanngjarnt þegar við förum að skoða það.

Ég nefndi Norðvesturkjördæmi hér áðan en það er auðvitað hægt að taka mörg önnur kjördæmi fyrir og einstaka byggðarlög í öðrum kjördæmum. Þegar við skoðum til dæmis stærstu útgerðirnar þá hafa þær í gegnum tíðina alltaf borgað minnst í hina samfélagslegu potta, eins og þeir eru stundum kallaðir. Þær borga minnst í veiðigjald miðað við afkomu og þær þurfa áfram að láta minnst í þessa potta. Síðan blasir við að með veiðigjaldinu, eða auðlindagjaldinu, er verið að taka mest af smæstu og meðalstóru útgerðunum þegar menn skoða niðurstöðurnar. Það hefur verið sýnt í tölulegum upplýsingum.

Ég ætla aðeins að nota síðustu mínútuna mína til að fara yfir eitt atriði sem ég er algjörlega ósammála hvernig er skipt í frumvarpinu. Ég er ekkert viss um að margir séu sammála mér um það. Ég er algjörlega ósammála því að blanda skiptingunni á potti 2 á milli ríkis, sveitarfélaga og einhvers þróunarsjóðs. Ég er algjörlega á móti því. Skattlagningin eða það sem kemur út úr pottinum sem menn leigja úr, svokölluðum leigupotti 2, á bara að fara í ríkissjóð. Það á ekkert að dreifa úr honum hingað og þangað. Þetta er bara til þess að dreifa einhverjum bitum svo að fleiri komi að þessu. Það er líka mjög sérstakt að þetta skuli vera svona þegar það sem snýr að auðlindagjaldinu er öðruvísi. Ég er hins vegar algjörlega meðvitaður um það hvaða áhrif þessi gjaldtaka hefur á viðkomandi sveitarfélög en menn eiga að gera þetta með allt öðrum hætti. Menn gætu sett gjaldtökuna inn í aflagjaldið eða hvernig sem er, það eru margar aðrar aðferðir til. Ég er alfarið á móti því að skipta þessu með þessum hætti enda er varað við því. Það stendur skýrt í umsögn frá fjármálaráðuneytinu að þetta skerði fjárstjórnarvald Alþingis og gangi gegn stjórnarskránni. Er það ekki umhugsunarefni fyrir okkur með öllum þessum frösum sem notaðir eru til að breyta núgildandi stjórnarskrá? Væri ekki gott að byrja á því að fara eftir henni?