141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt og það er skoðun mín líka að alger skortur sé á því. Af því að hv. þingmaður vitnaði til Péturs í Vísi og þeirra Vísis- og Þorbjarnarmanna í sjávarklasanum í hinu nýja fyrirtæki Codland, má auðvitað nefna Kerecis á Ísafirði líka þar sem menn eru að fara nýjar leiðir, þ.e. auka verðmæti úr sjávarafla. Við erum ekki að tala um neinar smátölur. Við erum að tala um að ef aðferðafræði þeirra Codlandsmanna verður að veruleika þá verður aukningin upp á eina 100 milljarða.

Hér er ríkið að skattleggja greinina ævinlega, taka peninga af þeim sem eru með atvinnuna í dag, taka atvinnutækifærin af þeim og láta einhverja aðra hafa. Við erum að tala um 1, 2, 3, 4, 5 milljarða, hringlandahátt og graut þar sem það markmið virðist aldrei nást sem ríkisstjórnin þó hefur, þ.e. að styrkja byggðirnar.

Þóroddur Bjarnason hefur sagt að þetta sé ekki hægt með stöðugri íhlutun ráðherra. Ég vil því spyrja hv. þingmann að lokum: Finnst honum líklegra að slík valdbeiting virki með alls konar útfærslum, aldri og ég veit ekki hvað og hvað, að ráðherrar velji byggðarlög og fyrirtæki til að fá á aflaheimildir, frekar en að taka upp raunverulega byggðastefnu þar sem menn styrkja byggðirnar í heild sinni?