141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi það og hvatti til þess að stjórnarliðar kæmu til umræðunnar og tækju þátt í henni. Við munum að þegar við höfum verið að ræða stór mál, t.d. Icesave, stóð svo sem ekki á því að stjórnarliðar mættu í salinn einu sinni á dag til að greiða atkvæði um lengd þingfundar og svo sáum við undir iljarnar á þeim. Sagði ekki meira af þeim fyrr en daginn eftir þegar leikurinn endurtók sig. (Gripið fram í: Það voru …)

Nú er hins vegar mikilvægt að við fáum þessa umræðu, líka vegna þess að hún er síkvik, hlutirnir eru alltaf að breytast. Það er alltaf að koma nýtt og nýtt innlegg í málið. Það nýjasta er auðvitað innlegg Feneyjanefndarinnar og ég hefði talið, m.a. með skírskotun til hinnar íslensku málstefnu, að við hefðum átt að bíða núna eftir þýðingu á þessu mikilvæga plaggi áður en við hæfum umræðuna.

Þess vegna greiði ég atkvæði gegn því að hér verði kvöldfundur og (Forseti hringir.) hvet sérstaklega hv. þm. Mörð Árnason í þeim efnum, að virða hina nýju íslensku málstefnu, og hefja ekki þessa umræðu fyrr en þýðing á Feneyjatvíæringnum liggur fyrir. (BirgJ: Hún liggur fyrir.) [Kliður í þingsal.]