141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Áðan var sagt að stjórnarandstaðan hafi eyðilagt það að sjávarútvegsfrumvarpið frá því í vor hefði verið afgreitt. Það er mikill misskilningur því frumvarpið var ónýtt þegar það kom inn. Við þurftum ekki að leggja neitt á okkur í þeim efnum, það var bara einfaldlega þannig. Núna stöndum við frammi fyrir því. Nú er búið að leggja fram nýtt sjávarútvegsfrumvarp. Sumum sýnist að þar sé ekki mikil breyting frá fyrri frumvörpum. Hv. þingmenn stjórnarliðsins segja hins vegar að í því sé gjörbreyting og það þýðir auðvitað að mikil efnisleg vinna þarf að fara fram í hv. atvinnuveganefnd sem þarf að fara mjög rækilega yfir málið.

Við báðum um að við fengjum sérfræðilegt álit eins og reyndist svo vel við fyrri tvö frumvörpin. Það finnst mér sanngjörn krafa, en deilan núna snýst um það hvort fara eigi fram alvöru efnisleg vinna í málinu og hvort menn vilji (Forseti hringir.) fá sérfræðilegt álit. Ég hef hins vegar skilning og samúð með því hjá stjórnarliðum (Forseti hringir.) sem hafa mjög vonda reynslu af sérfræðiálitum því þau leiða alltaf í ljós að málin þeirra eru kolómöguleg.