141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn undrar mig málflutningur þingmannsins vegna þess að hann telur að hér sé um vandaða málsmeðferð að ræða og telur að mál séu best ef þau eru rædd nógu mikið í þingsal. Ég vil minna á að þegar frumvarpið kom fyrir þingið var greinargerðin á þann veg að sérfræðingar hafa lagt til að ný greinargerð verði skrifuð. Ég hef ekki heyrt af því fyrr né síðar í íslenskri lagasetningu að ónýt greinargerð komi með frumvarpi inn í þingið og að setja þurfi inn í framhaldsnefndarálit einhverja lagatúlkun á því sem felst í frumvarpinu.

Virðuleg forseti. Það er íslensku stjórnarskránni ekki boðlegt hvernig málið er unnið. Það er einsdæmi hvernig þetta er. En ég var ekki að spyrja þingmanninn að því hvort þingmenn mundu skilja texta í enskum plöggum heldur um hitt hvers vegna verið er að ræða málið í þinginu þegar álit Feneyjanefndarinnar er ekki fullrætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.