141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Eftir mjög ítarlega yfirferð yfir þetta mál sem við ræðum hér í dag, og umræðan snýst að stórum hluta um aðkomu innanríkisráðuneytisins og ráðherra að málinu, blasir það við að mínu mati og er skrifað í skýin að bandaríska alríkislögreglan var hér á fölskum forsendum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hún var hér í öðrum erindum en upp voru gefin sem ástæða réttarbeiðninnar. Það er kjarni málsins og þess vegna er aðkoma ráðuneytis og ráðherra ekki bara fullkomlega eðlileg, heldur bar innanríkisráðuneytinu að grípa inn í ferlið er varðaði réttarbeiðnina þegar í ljós var komið að erindi bandarísku alríkislögreglunnar var annað en upp var gefið sem ástæðan fyrir réttarbeiðninni. (VigH: Sýndu gögn.) Þetta er kjarni málsins.

Það hefur komið skýrt fram, m.a. í gögnum sem ráðuneytið hefur dreift á fundum þingnefndanna, að uppgefin ástæða fyrir réttarbeiðninni og aðstoðinni var önnur. Þetta eru tvö gjörólík mál að mínu mati og það er algjörlega óútskýrt enn þá hvernig Wikileaks og það mál dróst inn í þetta sem átti upphaflega að vera yfirvofandi tölvuárás á Stjórnarráðið. Nú heyrist að það hafi átt að vera á stjórnkerfi Landsvirkjunar, þetta er allt mjög á reiki. Ráðuneytið var einungis að gera það sem því bar að gera í lögbundnu ferli. Því bar skylda til að rækja það hlutverk sitt, sem sagt að grípa inn í málið og aðhafast þegar við blasti að réttarbeiðnin náði ekki yfir uppgefið erindi.

Að mínu mati er hér ekki um að ræða pólitík, óeðlileg afskipti eða inngrip að neinu leyti. Hér er um að ræða fyrirmyndarstjórnsýslu sem brást við þegar við blasti að erindið var annað en upp var gefið.