141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég bara tali umbúðalaust. ESB er orðið hundleitt á EES, finnst mér stundum. Það er orðið hundleitt á tvíhliða samningunum við Sviss. Það er þess vegna sem ESB hefur bara sagt það með verkum sínum sem rakin eru í skýrslunni, í þeim kafla sem hv. þingmaður vísaði til, að það hefur lítinn vilja til þess að leggja sig mjög mikið fram til að búa til einhvers konar sérstöðu fyrir þessi ríki. Ég gæti túlkað það með þeim hætti að ESB vilji miklu frekar fá þau inn í Evrópusambandið. Mér finnst það stundum vera með þeim hætti, háttsemi þeirra.

Það liggur alveg ljóst fyrir að dregið hefur úr vilja til þess að veita undanþágur innan EES. Það er bókstaflega sagt að það sé miklu auðveldara fyrir þessi ríki að ganga í Evrópusambandið. Sömuleiðis hefur ESB bókstaflega sagt, og það er rakið þarna, varðandi tvíhliða samningana, sem mér hefur stundum heyrst að hv. þm. Bjarni Benediktsson telji jafnvel vera möguleika fyrir Ísland í framtíðinni, að komið sé (Forseti hringir.) á endastöð í því efni, það sé búið, að ekkert ríki fái slíka meðferð í framtíðinni.