141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar um utanríkis- og alþjóðamál. Þar er af mörgu að taka. Ég sakna þess dálítið að lítið er rætt um gleymd stríð víða um heim. Við höfum lítið rætt um ástandið í Sýrlandi sem er mjög slæmt og veldur gífurlegum hörmungum. Mér finnst líka skorta á að menn ræði um mansal, þrælahald, eiturlyf, eiturlyfjasmygl og alla þá kúgun sem því fylgir og ofbeldi. Í heiminum er fjöldi fólks sem ekki hefur ríkisfang og er í raun réttlaust. Á sama tíma erum við að setja inn í stjórnarskrá ákvæði um að börn Íslendinga fái ríkisfang sem geti leitt til þess, ef sú regla yrði almenn, að eitthvað af fólki fái mjög marga ríkisborgararétti. Eftir tvær til þrjár kynslóðir getur maður séð fram á að einn aðili getur verið með ríkisfang fjögurra, fimm eða átta ríkja.

Ég ætla að ræða aðeins um Kína og þá samninga sem þar er verið að vinna að. Þó að ég sé ekki mjög hlynntur ríkisvaldinu í Kína — þetta er einræðisríki og virðir ekki mannréttindi að fullu, alls ekki, og þar er ekkert lýðræði — er þetta mjög vaxandi efnahagsveldi og hefur tekist að koma upp markaðskerfi þrátt fyrir að stefnan sé enn að nafninu til kommúnismi sem í rauninni rekst á markaðinn. Þetta er mjög pragmatísk lausn og Kína blómstrar og vex með þessum mótsagnakennda hætti.

Hætt var við þær viðræður, væntanlega af því að við sóttum um aðild að Evrópusambandinu. Þá sáu Kínverjar að það þýddi ekkert að vera að semja við ríki sem væri að fara í Evrópusambandið. En svo sáu þeir fljótlega að við færum aldrei í Evrópusambandið, þannig að þeir tók um aftur upp viðræður og hafa keyrt þær áfram. Það er dálítið undarlegt að ríkisstjórn sem er skilyrðislaust að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og ætlar að keyra það í gegn á stuttum tíma eins og sagt var, sé jafnframt að leggja í kostnað við að gera samninga við önnur ríki sem ekki eru heimilir ef við erum komin inn í Evrópusambandið.

Það sem ber kannski hæst í utanríkismálum Íslands er dómurinn um Icesave, ég ætla nú ekki að fara nánar út í hann, ekkert nema til að gleðjast yfir honum. Síðan erum við enn að tala um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu sem ég er eindregið á móti og ég skil ekki af hverju menn vilja ekki leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um það hvort hún vilji ganga inn. Það hefur komið fram að margir þingmenn vilja ekki ganga í Evrópusambandið jafnvel þó við fengjum eins góðan samning og þeir gætu hugsað sér. Þetta er nefnilega eitt ríkjasamband.

Það sem mig langaði til að tala um, herra forseti, eru peningar og utanríkisþjónustan. Ég hef nefnt það áður að utanríkisþjónustan nýtur víðtæks skattfrelsis. Menn sem vinna hjá samtökum eins og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og slíkum samtökum njóta skattfrelsis. Það hlýtur að vera undarleg tilfinning fyrir mann sem er að hjálpa sveltandi börnum að vera sjálfur skattfrjáls og taka engan þátt í því að kosta samfélagið. Síðan er staðaruppbótin hjá íslenskum sendimönnum skattfrjáls o.s.frv.

Ég ætlaði líka enn frekar að ræða þessi stóru mál eins og til dæmis það að Evrópusambandið hefur í 16 ár lifað við það að endurskoðendur neita að skrifa undir ársreikningana þannig að þeir hafa ekki verið endurskoðaðir. Það er vegna þess að endurskoðendur telja svo stórar villur í ársreikningunum að ekki sé hægt að skrifa upp á þá. Þetta er náttúrlega ekki nógu gott.

Það sem ég ætlaði að tala sérstaklega um er framlag Íslands til ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem eru 46 milljónir — svo sem ekki há tala, en það sem er merkilegt við hana er það að hún fer úr höndum íslenskra þingmanna, sem eiga að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins, og hún fer líka úr höndum Ríkisendurskoðunar. Hún fer til útlanda, fer inn í hítina hjá ÖSE og þar er kosin endurskoðun, oftast ríkisendurskoðun einhvers ríkis, síðast Úkraínu, og hver ræður hana? Það er ÖSE-stofnunin sjálf sem ræður ríkisendurskoðunina. Ríkisendurskoðunin skilar skýrslu bara til ÖSE-stofnunarinnar sjálfrar, þröng stjórn ÖSE fær að sjá þessa skýrslu og enginn annar. Þetta tel ég vera mikið brot. Ég hef verið fulltrúi í ÖSE-þinginu í fjölda ára og hef barist fyrir því þar að ÖSE-þingið kjósi endurskoðendur fyrir ÖSE-stofnunina. Það finnst mér eðlilegt, það er í samræmi við það sem við gerum í þjóðþingunum í öllum þessum löndum, í þeim 57 löndum sem eru aðilar að ÖSE-stofnuninni og þinginu.

Ég teldi eðlilegt að ÖSE-þingið kysi endurskoðanda og greiddi hann fyrir ÖSE-stofnunina og fengi síðan niðurstöðu endurskoðunarinnar. Að öðru leyti er þetta í raun þannig að þessir peningar fara inn í ákveðið svarthol. Þeir fara inn í einhverja hít. Jú, það er framkvæmt eftirlit en þeir sem fá skýrsluna úr eftirlitinu eru þeir sem stjórna hítinni. Þetta tel ég engan veginn heppilegt og vildi gjarnan spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann kannist við það að peningar sem fara inn í ÖSE séu án eftirlits utanaðkomandi og sjálfstæðs endurskoðanda sem gefi skýrsluna víðar en bara til þeirra sem stjórna fjármálum ÖSE. Þessu hef ég verið að berjast fyrir í lengri tíma að fá í gegn. Ég tel að þetta sé algjörlega á skjön við og þvert á stefnu sem allir þykjast vera að fylgja, þ.e. að hafa eigi gegnsæi í fjármálum.

Ég vonast til þess að menn sjái að sér hjá ÖSE og breyti þessu og að ÖSE-þingið, eins og þjóðþingin, velji endurskoðanda fyrir þetta mikla fé, það eru 17 milljarðar þarna inni, og að sú endurskoðunarskýrsla fari til ÖSE-þingsins sem geti fylgst með því hvernig þessum peningum er ráðstafað þegar þeir fara úr höndum viðkomandi þjóðþinga og fara undan eftirliti þjóðþinganna.

Nú veit ég ekki hvernig þessu er háttað með önnur samtök eins og Sameinuðu þjóðirnar, NATO og fleiri. Það væri kannski efni í fyrirspurn að spyrjast fyrir um það hvernig endurskoðun og eftirliti með fjármununum er háttað ef þeir fara út úr landi. Ef það er eins og hjá ÖSE-stofnuninni er það engan veginn til eftirbreytni.

Ég vil taka fram að ég tel að ÖSE-stofnunin sé að vinna gott starf. Hún er til dæmis að vinna gegn mansali. Hún er að vinna að frelsi fjölmiðla. Hún vinnur líka gegn vopnasmygli og að ýmsum góðum málum, en fyrst og fremst er hún að vinna í því að fylgjast með og hafa eftirlit með kosningum. Það er starf sem ég held að sé mjög mikilvægt, ekki bara í vanþróuðu löndunum svokölluðu heldur líka hér á landi. Þessi ágæta stofnun hefur meira að segja haft eftirlit og skoðað kosningar á Íslandi og gert athugasemdir sem ég held að sé alltaf hollt og gott.