141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:10]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Herra forseti. Ég vil hér gera að umtalsefni kaflann í skýrslu hæstv. ráðherra á bls. 50 sem lýtur að matvælalöggjöfinni, en þar segir, með leyfi forseta:

„Verulegur hluti matvælalöggjafar ESB hefur á grundvelli EES-samningsins þegar verið tekinn upp í íslenskar réttarreglur. Við innleiðingu í íslenskan rétt ákvað Alþingi hins vegar að viðhalda banni við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og skinni, með skírskotun til undanþáguákvæðis sem finna má í 13. gr. EES-samningsins.“

Svo kemur:

„Óvissa ríkir um hvort innleiðing með þessum hætti sé í samræmi við EES-samninginn og kvörtuðu Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) vegna þessa til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem hefur haft málið til skoðunar.“

Herra forseti. Hér er sjálfur ráðherrann að draga í efa í skýrslu sinni að lög sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust hafi haft þann bakgrunn sem til þurfti.

Þetta er ítrekað í texta hæstv. ráðherra:

„ESA hefur jafnframt hafið samningsbrotamál vegna dráttar Íslands á innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 745/2004 er varðar ráðstafanir varðandi innflutning afurða úr dýraríkinu til einkaneyslu. Innleiðing reglugerðarinnar hér á landi var vandkvæðum háð vegna banns í íslenskum lögum við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og skinni og dróst því að innleiða reglugerðina hér á landi. Í kjölfarið var reglugerðin innleidd hér á landi, þó að teknu tilliti til ákvæða íslenskra laga um bann við innflutningi á fersku kjöti, eggjum og skinni. Telja verður líklegt að ESA muni halda málarekstrinum áfram og bera innleiðingu gerðarinnar hér á landi undir EFTA-dómstólinn.“

Þetta er texti hæstv. ráðherra sem lýsir því að ráðherrann telji að þarna hafi Alþingi í rauninni ekki haft heimild til að setja þau lög sem voru sett samhljóða. Sú lýsing sem er gerð hér á málavöxtum er bæði fullkomlega misvísandi og hún er ófullkomin og jafnvel röng.

Í fyrsta lagi ríkir ekki nein óvissa um hvort innleiðing matvælalöggjafar Evrópusambandsins með þessum hætti sé í samræmi við EES-samninginn en innleiðing hennar var gerð með lögum nr. 143/2009 varðandi innleiðingu á reglum Evrópuþingsins um þau mál. Þá voru meðal annars gerðar hér breytingar á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, og samkvæmt 13. gr. EES-samningsins sem heimilar Íslandi ótvírætt að banna innflutning, útflutning eða umflutning á vörum til Íslands til að vernda heilbrigði manna, dýra og plantna og vernda önnur verðmæti sem kunna ella að vera í hættu við framkvæmd samningsins.

Herra forseti. Ég lagði mikla áherslu á þetta sem ráðherra, að standa við þau lög sem Alþingi hafði samþykkt um að banna innflutning á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Um það var að vísu deilt í ríkisstjórn og síðan beint við mig sem ráðherra af forustumönnum núverandi ríkisstjórnarflokka. Ég skipaði þá nefnd, starfshóp færustu sérfræðinga Íslendinga á því sviði til þess að fara þá ofan í þau mál og vera viðbúinn að bregðast við kærum af þeim toga sem þarna var hótað.

Forustumenn ríkisstjórnarflokkanna vildu heldur að ráðinn væri danskur dýralæknir til (Forseti hringir.) að fjalla um málið en það féllst ég ekki á og sagði að þetta væri íslenskt mál.

Herra forseti. Mér finnst dapurt að í þessum kafla skuli (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra draga í efa réttmæti okkar til lagasetningar í þeim efnum, en ég stend við það og ver það hér að við höfðum fullkomlega rétt til að verja okkar hagsmuni með þessum hætti.