141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Fyrst hv. þingmaður telur að ég hafi svona rangt fyrir mér, af hverju vill hann ekki leyfa mér að fara í samningana? Þá kemur það fram. Hann vill það ekki, hann er eins og hv. þm. Jón Bjarnason, þeir eru hræddir við það að við samningaborðið komi það fram, eins og hefur komið fram í samningum Evrópusambandsins við fjölmörg önnur ríki, að það er hægt að ná sérlausnum. Og sérlausnir verða hluti af lögum og reglum Evrópusambandsins (JBjarn: Nei.) Þess vegna eru þær (ÁsmD: Þetta er rangt.) ekki það sama og hv. þingmaður kallar hér undanþágur eða varanlegar undanþágur. Það er bara svo einfalt mál.

Hv. þingmaður nefndi síðan flökkustofnana, þeir eru einmitt gott dæmi um þann skjöld og þá hlíf sem við gætum haft af því að vera innan Evrópusambandsins. Hv. þingmaður þekkir slagkraft sambandsins í deilum við ríki sem standa fyrir utan það. Við eigum í dag einungis ósamið um einn af þeim mörgu flökkustofnum sem fara um efnahagslögsöguna og það er makríll. Eðli máls samkvæmt verður makríldeilan frá þegar við verðum hluti af Evrópusambandinu ef íslenska þjóðin kýs svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þýðir að við höfum með aðild að Evrópusambandinu, vegna reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika sem byggist á sögulegri veiðireynslu, í reynd íslenska girðingu um flökkustofnana. Út af (Gripið fram í.) gildi sögulegu veiðireynslunnar þýðir það einfaldlega að við höldum okkar hlut.

Það sem meira er, ef breytingar á veðurfari plánetunnar leiða til þess að hlýnun verði í sjónum og jafnvel staðbundnir stofnar kynnu að leita út úr lögsögunni, eins og einn gamall sjómaður sem sat á Alþingi sagði yfir þennan stól, Addi Kitta Gau, hv. fyrrverandi þingmaður, gildir þessi regla líka um þá. Með því að ganga í Evrópusambandið fáum við girðingu sem gerir það að verkum að við höldum okkar hlut, bæði í staðbundnum og flökkustofnum. (Gripið fram í: Ekki ný …)