141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru sannarlega jákvæð tíðindi sem bárust frá Fitch Ratings í gær um að lánshæfismat landsins hafi hækkað örlítið en það er þó því miður ekki mjög burðugt. Það er hins vegar athyglisvert að lesa það skjal sem fylgir niðurstöðu matsfyrirtækisins sem leiðir í ljós að staðan á Íslandi er ákaflega brotakennd, svo ekki sé meira sagt.

Það er athyglisvert að eitt af því sem matsfyrirtækið nefnir helst til sögunnar er að árangur hafi orðið af samstarfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en það samstarf var ákveðið af fyrrverandi ríkisstjórn haustið 2008. Einnig er vísað til þess að skuldir heimila og fyrirtækja hafi lækkað en eins og við öll vitum er það ekki vegna stjórnvaldsaðgerða nema að mjög litlu leyti. Það má að langmestu leyti rekja til þess að erlend lán sem fyrirtæki og einstaklingar höfðu tekið voru dæmd ólögmæt.

Það sem vekur hins vegar miklar áhyggjur er sú staða sem rakin er í þessu skjali Fitch Ratings þar sem athygli er vakin á því hversu ástandið í landinu er ákaflega brotakennt. Þeir nefna meðal annars að til þess að við getum haldið áfram að vænta þess að hér geti orðið viðsnúningur þurfi að ríkja stöðugleiki í gengi. Það höfum við ekki séð. Við vitum að gengið hefur verið að veikjast þrátt fyrir inngrip Seðlabankans. Þeir tala um mikilvægi þess að setja á trúverðuga leið til að aflétta gjaldeyrishöftum en vekja um leið athygli á því að lítill árangur hafi orðið af því á kjörtímabilinu. Þeir vekja líka athygli á mikilvægi frekari endurskipulagningar skulda heimila og atvinnulífs, en nú vitum við að ríkisstjórnin hefur í raun boðað að ekkert frekara verði gert af þeim toga. Þeir tala um frekari lækkun skulda ríkisins við útlönd. (Forseti hringir.) Ekkert slíkt er núna í sjónmáli, þvert á móti heyrum við fréttir af því að horfur vegna ríkissjóðs fara versnandi, tekjur muni lækka og hagvaxtarspárnar ganga ekki eftir (Forseti hringir.) nema síður sé, þannig að ég segi: Því miður eru skilaboðin frá Fitch Ratings líka mikil áminning um að mjög illa hefur tekist til við stjórnarstefnuna.