141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert óljóst hvernig við lögðum þetta upp. Þar sem við töldum að þyrfti að vinna betur og skýra betur hugtök hurfum við aftur til tillagna stjórnlagaráðs. Það kemur fram í skýringum í upphafi nefndarálitsins. Það á við um „einkaeign“ og „háð einkaeignarrétti“, það á líka við um það sem snýr að fullu gjaldi og fleira í þessu frumvarpi með breytingum frá okkur, þannig að það er ekkert óljóst um það.

Við þurfum að vinna málið saman og við þurfum að eiga þessa samræðu. Hún hefur því miður ekki verið nógu góð í nefndinni en hún er mjög góð hér í þingsalnum. Hún er til vitnis um að við ættum að geta farið í gegnum umræðu um 34. gr., sem er mjög mikilvæg, og talað okkur til sameiginlegs skilnings á því hvað við viljum gera þar. Ég hygg að Framsóknarflokkurinn og aðrir flokkar sem flytja þetta mál séu sammála að því leyti og það er mjög mikilvægt.