141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:05]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég las upp áðan hversu margir nefndarfundir hefðu verið haldnir og í máli mínu fjallaði ég meðal annars um þá staðreynd að það hefði verið mjög misjafnt milli nefnda hversu djúpt hefði verið farið í málin og hvernig þau hefðu verið unnin.

Sú staðreynd liggur algjörlega fyrir að við erum að fjalla um gríðarlega mikilvæg mál. Við erum að fjalla um auðlindamálin, menningarminjarnar og sveitarstjórnarmálin og það lágu fyrir beiðnir um að fá fleiri gesti fyrir nefndina, m.a. frá þeim sem hér stendur og frá hv. þm. Birgi Ármannssyni og Atla Gíslasyni. Það lágu fyrir beiðnir um að fá gesti fyrir nefndina og ég fór inn á það í máli mínu áðan að ég hefði talið gott, m.a. fyrir auðlindaákvæðin, að fá á fundi nefndarinnar t.d. náttúruverndarsamtök, þá sem nýta landið eins og samtök landeigenda, útgerðarmenn og fleiri til að fá sem flest sjónarmið í vinnuna.

Því var ekki tekið og ekki samþykkt af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Það hefði verið mikilvægt fyrir málið vegna þess að mér er kunnugt um að sumum fannst mjög sérstakt að umhverfis- og samgöngunefnd, sem m.a. fjallaði um þessar greinar, hefði ekki kallað þau samtök og þá aðila á fundi nefndarinnar til að ræða málin.

Ég sagði líka frá fjölda funda sem hefði verið haldinn hér. Það er skoðun þess sem hér stendur að það hefði átt að fara dýpra ofan í málið og reyna að gera það í breiðari sátt, en það var ekki gert. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að æsa sig yfir því, það er auðvitað staðreynd að beiðnirnar lágu fyrir og þeim var hafnað.