141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:25]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þakka henni sérstaklega fyrir það að hún segir að stjórnarskrá sé alls ekki bara lög heldur sé hún ákveðinn samfélagssáttmáli. Mér finnst mjög mikilvægt að við erum sammála um að hér er ekki eingöngu um lög að ræða, þó að sjálfsögðu séu þetta grundvallarlög okkar. Hún spyr hvort sáttmálinn þurfi ekki að vera fyrir okkur öll. Ég verð að viðurkenna að ég tel að einmitt það ferli sem ég lagði áherslu á í ræðu minni og hef gert í öllum þeim ræðum sem ég hef flutt um þetta mál sé til vitnis um að stjórnarskráin sé fyrir okkur öll.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst við stundum skilgreina þetta dálítið þröngt, við séum að þröngva stjórnarskránni í gegn og hér sé svo mikið ósætti. Sáttin náðist í ferli málsins úti í samfélaginu, í þeim reglum sem við settum um hvernig við vildum koma málinu í gegn. Þó að það sé pólitískur ágreiningur á þinginu finnst mér afar sérstakt að tala svona mikið um ósætti vegna þess að ég las upp áðan hver vinnubrögð stjórnlagaráðs voru og hvernig þeir einstaklingar náðu sátt um hverja grein fyrir sig.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst það — ég veit ekki hvernig ég á að orða það, ákveðinn sigur fyrir okkur vinstri menn ef þetta er okkar stjórnarskrá. Ég get ekki sagt annað. Ég held að það hafi ekki allt verið vinstri menn sem sátu í stjórnlagaráði, ég held að það hafi verið ágætisspegilmynd af samfélaginu. Ég get ekki séð að þetta sé á nokkurn hátt til vinstri, hægri eða í miðjunni heldur ákveðinn spegill af samfélaginu. Varðandi það að alla lögfræði vanti í plaggið verð ég að viðurkenna að mér finnst það ákveðin móðgun við þá sérfræðinga sem unnið hafa að málinu að segja það.