141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[14:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fullkomið ófremdarástand ríkir í atvinnuveganefnd. Við erum nú með til meðhöndlunar frumvarp sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, reyndar ný heildarlög. Þannig er mál með vexti að gert er ráð fyrir ákaflega stuttum umsagnartíma fyrir þá sem ætlað er að segja álit sitt á þessu máli. Það er einungis rúmlega vika sem þeir aðilar hafa til að fjalla um málið og umsagnarfresti á að ljúka um næstu helgi. Engu að síður er byrjuð efnisleg umfjöllun um málið þar sem verið er að kalla fyrir okkur umsagnaraðila án þess að þeir séu búnir að ljúka vinnu sinni við undirbúning málsins. Þetta verður auðvitað mjög ómarkvisst.

Við höfum lagt á það áherslu, fulltrúar minni hlutans, að fram fari vönduð úttekt á áhrifum þessa frumvarps eins og gert var við fyrri tvö frumvörpin. Við því hefur ekki verið orðið. Búið er að tefja ákvörðun um þetta núna von úr viti augljóslega til að reyna að koma í veg fyrir að hægt verði að framkvæma þessa úttekt. Þetta eru dæmigerðir tafaleikir vegna þess að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn vill ekki að raunverulegu (Forseti hringir.) ljósi sé varpað á þetta frumvarp og áhrif þess. Þeir óttast upplýsingarnar, þeir óttast staðreyndirnar og vita um afleiðingarnar og þora ekki að draga það fram í dagsljósið.