141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

106. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1010 í máli nr. 106 sem lýtur að verðbréfasjóðum. Hér er um að ræða framhaldsnefndarálit. Fyrir nefndaráliti var fyrst mælt við 2. umr. en málið var fyrst og fremst kallað inn í nefnd milli 2. og 3. umr. af einni ástæðu sem var áhyggjur af því að með því að hagnýta sér ákvæði laganna gætu menn sneytt hjá þeim gjaldeyrishöftum sem eru í gildi í landinu. Það mál var skoðað sérstaklega milli 2. og 3. umr. og rætt bæði við Seðlabankann og atvinnuvegaráðuneytið. Á fund nefndarinnar komu sérfræðingar frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum.

Það er alveg afdráttarlaus afstaða atvinnuvegaráðuneytisins að lög um gjaldeyrishöft ganga framar þeim lögum sem hér er verið að setja. Lögin um gjaldeyrishöftin grípa auðvitað inn í á fjölmörgum sviðum og inn í fjölmörg lög og setja takmarkanir við fjármagnshreyfingum af neyðarástæðum. Þau takmarka ákvæði þessara laga eins og annars staðar þó að ekki sé kveðið á um það með sérstöku ákvæði eins og var að finna í frumvarpi til laga um rafeyri. Það breytir ekki því að lögin um gjaldeyrishöft ganga framar þessum lögum þegar þau taka gildi.

Í lögum um gjaldeyrishöft eru ákvæði er lúta að verðbréfasjóðum, bæði í 13. gr. b og 13. gr. e. Ég sé ástæðu til að undirstrika í framsögu með nefndaráliti við 3. umr. þann skýra skilning nefndarinnar að lögin um gjaldeyrishöft ganga framar þeim lögum sem hér er verið að lögfesta. Þannig munu til að mynda innlendir sjóðir sem eru að markaðssetja sig á öðrum mörkuðum þurfa að gera í þeirri markaðssetningu grein fyrir þeim höftum sem hér eru á fjármagnsflutningum milli landa.

Þetta vildi ég, virðulegi forseti, árétta við upphaf 3. umr. og vísa að öðru leyti til þess sem fram kemur í framhaldsnefndaráliti á þskj. 1010.