141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[19:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því við virðulegan forseta áðan að gert yrði hlé á þessum fundi og að fundað yrði í forsætisnefnd. Ég óska eftir því að hæstv. forseti bregðist við þeirri beiðni vegna þess að ekki hefur verið haft neitt samráð um dagskrána og voru gerðar athugasemdir við hana sem ekki hefur verið brugðist við eða rætt um af hálfu forseta. Mér finnst nauðsynlegt að forseti Alþingis komi þá til fundar við okkur í þinghúsinu til að ræða framgang málsins.

Í annan stað mælist ég til þess að tryggt verði að hæstv. innanríkisráðherra geti verið viðstaddur umræðuna, mér finnst það sjálfsögð kurteisi. Það er ekki einsdæmi að óskað sé eftir því að virðulegir ráðherrar séu viðstaddir umræðu af ýmsum toga, (Gripið fram í.) það þekkja hv. þingmenn sem eru í þingsal. Ég mælist til þess að jafnvel þó að umræðan sé hafin um þingmálið (Forseti hringir.) verði henni ekki lokið á þessum þingfundi heldur verði henni frestað og gerðar ráðstafanir til þess að (Gripið fram í.) hæstv. innanríkisráðherra geti verið (Forseti hringir.) viðstaddur umræðuna (Gripið fram í.) þegar hún fer fram.