141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[14:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka almennt fyrir umræðuna sem að flestu leyti var málefnaleg þó svo einhverjir hv. þingmenn hafi brugðið út af henni og þá sér í lagi hv. þm. Helgi Hjörvar sem stóðst ekki freistinguna að hæla blessuðu Evrópusambandinu og reyna um leið að hnýta í Framsóknarflokkinn eins og hann gerir gjarnan. Ég vil benda hv. þingmanni á að Framsóknarflokkurinn hefur það kannski umfram Samfylkinguna að hann hefur þorað að skoða hvort það sé vitrænt að taka upp aðra gjaldmiðla, sama hvað þeir heita. Samfylkingin virðist hins vegar vera algjörlega föst í því að evran sé það eina sem er í boði. Framsóknarflokkurinn komst að þeirri niðurstöðu á flokksþingi sínu fyrir skömmu að krónan sé það sem við ætlum að halda okkur við. Það er einfaldlega vegna þess, og það sjá allir sem vilja hafa augun opin, að krónan verður gjaldmiðill Íslands næstu 10–20 árin.

Þannig er staðan og það staðfesti sérfræðingur Evrópusambandsins sem var hér á dögunum og fundaði m.a. með utanríkismálanefnd. Það evrusnuð sem Samfylkingin vill troða upp í þjóðina er orðið tætt og illa lyktandi, ég verð að segja það. Það er mikilvægt fyrir okkur að láta ekki blekkjast því að það er einfaldlega þannig að ef það á að fylgja stefnu Samfylkingarinnar og bíða eftir evrunni í 10–20 ár munu þúsundir heimila á Íslandi komast í þrot og það getur ekki verið sú stefna sem við viljum hafa hér. Það bara getur ekki verið.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að reyna að svara þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Ég fagna því að ráðherrann lýsti því yfir að hún er sammála því að mikilvægt sé að reyna að flýta málum eins og hægt er. Að sjálfsögðu eru einhverjar takmarkanir á því en við verðum að beita okkur fyrir því að málin verði tekin fyrir og þau afgreidd eins fljótt og mögulegt er. Síðan er það að vilja skoða hvort við getum sett þak á verðtrygginguna, í það minnsta varðandi nýja lánasamninga sem eru gerðir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að setja niður hælana þannig að þeir sem taka verðtryggð lán, þótt við séum kannski að tala um framtíðina akkúrat núna, lendi ekki í því sama og hinir sem þekkja það.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti þakka fyrir umræðuna.