141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

vandi Íbúðalánasjóðs.

[15:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki illa meint en ég hlýt að minna hv. þingmann á að ég er ekki velferðarráðherra og fer ekki með málefni Íbúðalánasjóðs og ég er ekki lengur fjármálaráðherra og ekki heldur efnahags- og viðskiptaráðherra. Hv. þingmaður spyr mig því í sjálfu sér um mál sem, að mér sýnist, heyrir að engu leyti beint undir starfssvið mitt núna í ríkisstjórn. Ég get hins vegar svarað því almennt að það er mitt viðhorf að augljóslega hafi verið gerð mikil mistök í meðförum á Íbúðalánasjóði — var það ekki á árinu 2002 eða svo sem breytingarnar voru gerðar — sem valda því að Íbúðalánasjóður er óvarinn fyrir uppgreiðslu og það er veruleg uppgreiðsluáhætta vegna þess að menn geta greitt upp lánin en fjármögnun Íbúðalánasjóðs á hina hliðina er ekki með sambærilegum hætti uppgreiðanleg eftir að úrdrætti húsnæðisbréfanna var hætt. Það er ósköp einfaldlega áhætta sem við þekkjum og vitum af og það eru mistök sem liggja í fortíðinni að svona var gengið frá málum Íbúðalánasjóðs. Þetta hefur verið í mikilli skoðun. Greiningarfyrirtæki vann úttekt á Íbúðalánasjóði og síðan hefur sérstök nefnd haldið áfram skoðun á málefnum sjóðsins.

Varðandi virkni stýrivaxtanna þá held ég að við þekkjum það alveg að hin umfangsmikla verðtrygging í landinu hefur þar áhrif. Ekki er þar með sagt að Seðlabankinn hafi ekki fleiri tæki en stýrivextina. Hann getur reynt að þrengja vaxtaganginn og hann getur beitt samblöndu af vaxtaákvörðunum á innlánum og bindiskyldu þannig að það hafi meiri áhrif en ella. Það snýst ekki bara um stýrivextina sjálfa. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum lága vexti og ég gleðst yfir því að vextir lækka en það þyrfti helst að gagnast þeim sem eru þá að taka lán eða bera skuldir. Vandi okkar í dag er sá að þó að markaðurinn í sjálfu sér hafi lækkað vexti, vegna þess að hér er mikið af fjármagni á lausu og læst inni í hagkerfinu, þá nýtist það ekki með sama hætti á hinum endanum. Hvort Seðlabankinn getur að einhverju leyti stuðlað að þeirri þróun, það væri fróðlegt að eiga orðaskipti um það við sérfróða aðila eins og hv. þingmann.