141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

framhald aðildarviðræðna við ESB.

[15:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Bara til þess að upplýsa hæstv. ráðherra vil ég nefna að það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á flokksþingi Framsóknarflokksins að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Það er ekki að ástæðulausu sem þetta mál er tekið upp hér undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Þetta er stórmál því að eins og ég rakti í minni fyrri ræðu var það einmitt hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem sagði daginn fyrir kjördag að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu á hans vakt.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann hefði stutt þá tillögu að þjóðin yrði spurð og orðið undir í atkvæðagreiðslu á landsþinginu. Ég hef lesið ályktunina og ráðherrann heldur hér fram að þetta þýði ekki að það verði haldið á málinu með sama hætti og gert hefur verið. Ályktunin eins og samþykkt var í þessu máli ber það með sér að það á (Forseti hringir.) að halda áfram með nákvæmlega sama hætti og haldið hefur verið á málinu. Hvernig öðruvísi á að halda á þessu máli, getur hæstv. ráðherra upplýst það hér? (Forseti hringir.) Er einhver ástæða til að trúa hæstv. ráðherra nú fyrst það var ekki hægt fyrir síðustu kosningar í því sem sneri að þessu stóra máli?