141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist hv. þingmaður koma með mjög skarpan nýjan vinkil inn á þetta mál. Spurningin er hvort eftirlitið sem við erum að setja í stórum stíl til þess að fylgjast með vissum fjölmiðlum kunni hugsanlega að kæfa þá og kyrkja í samkeppni við netið. Ég held að hv. þingmaður hafi verið ansi veikur í mati sínu, hann sagði að þetta væri kannski svipað áhorf. Ég held að miklu meira áhorf sé á Facebook hér á landi en á þá fjölmiðla sem við erum að tala um. Miklu, miklu meira, því það eru hundrað þúsund manns alla vega að fylgjast hver með öðrum. Þá verður svo mikil virkni á milli. Þarna koma fram alls konar skoðanir og alls konar upplýsingar, svo maður tali nú ekki um upplýsingarnar sem maður getur fengið í gegnum leitarvélar sem hafa vaxið svo hratt undanfarinn áratug. Maður þarf ekki einu sinni að fara nema einn áratug aftur í tímann og maður sér ekki alveg fyrir sér hvernig þetta muni verða eftir annan áratug, svo maður tali nú ekki um eftir 50 ár. Þá er ég ansi hræddur um að þessir risar sem við köllum svo, sem fjölmiðlanefnd og aðrir skulu hafa eftirlit með, séu bara farnir og kæfðir einhvers staðar með þessu mikla eftirliti sem menn eru að setja á þá.