141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að mér hefur áunnist eitthvað í þeirri litlu kennslustund sem hv. þingmaður hefur beðið mig um að fara í varðandi markaðssetningu og merkingar og þess vegna samræmdar prófanir á trefjasamsetningu textílvarnings sem er markaðssettur hér á landi, sem er auðvitað partur af innri markaðnum.

Til að upplýsa hv. þingmann frekar á það við um allar textílvörur sem eru markaðssettar. Til dæmis gólfteppi og sokkana sem ég eða hv. þingmaður erum í og kaupum hugsanlega á hinum íslenska markaði, sem er partur af innri markaðnum í Evrópu og skiptir auðvitað miklu máli.

Í fyrra andsvari mínu gat ég þess undir lok ræðu minnar að þetta væri til þess að neytendur keyptu ekki köttinn í sekknum. Sekkir, sérstaklega ef þeir eru úr striga, eru til dæmis partur af því. Auðvitað er það til hagræðis fyrir marga sem framleiða fatnað og alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að undir núverandi ríkisstjórn hefur innlendur iðnaður sem betur fer blómstrað. Það sem hann sagði um að innlendur fataiðnaður væri í örum vexti er líka rétt. Ég gæti nefnt ýmiss konar framleiðslufyrirtæki sem bæði framleiða fatnað hér á landi en líka í fjörrum löndum og flytja hann aftur hingað og á innri markaðinn. Það er ekki síst þess vegna sem reglurnar eru settar, til að tryggja að við slík tilvik sé í gadda slegið, eins og ég sagði áðan, að menn kaupi ekki köttinn í sekknum ef þeir verða sér úti um … (GÞÞ: Trefjasekknum.) í trefjasekknum.

Frú forseti. Ég tel að við séum nú fullsáttir, ég og hv. þingmaður, og séum komnir niður á sameiginlegan grunn í skilningsskiptum okkar varðandi málið.