141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt umræða. Ég ætla á eftir að koma aðeins inn á skuldir en ég get ekki litið fram hjá þeirri ræðu sem hv. þm. Magnús Orri Schram hélt áðan þar sem hann útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. Þetta er merkileg yfirlýsing, ekki síst er hún merkileg í ljósi þess að Vinstri grænir opnuðu einmitt á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn á sínum landsfundi. Nú veltir maður fyrir sér hvort þessir flokkar eru að hafa vistaskipti vegna þess að Vinstri grænir ályktuðu líka mjög í anda Evrópusambandsins. Nú bíð ég spenntur eftir því hvort það komi einhver ný stefna frá Samfylkingunni um að hún sé orðin meira á móti Evrópusambandinu en Vinstri grænir. Þetta er svolítið ruglingslegt.

Ég hélt satt að segja, frú forseti, eftir landsfund Vinstri grænna að nú væri búið að fjölga enn einum samfylkingarflokknum. Við heyrðum talað um Bjarta framtíð eins og Litlu samfylkinguna. Einhver nefndi eftir landsfund VG að nú væri orðin til Vinstri samfylkingin þannig að þeir væru orðnir þrír, þessir samfylkingarflokkar.

Þá gerist það merkilega að aðalsamfylkingarflokkurinn útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn þannig að nú hljótum við að fara að velta því fyrir okkur og telja saman hvernig næsta ríkisstjórnarsamstarf getur verið þegar menn taka upp á þessu.

Það sem er athyglisvert við helgina og síðustu vikur er að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað á landsfundi sínum að fara leið Framsóknar þegar kemur að heimilunum. Við fögnum því að sjálfsögðu, en það sem vekur kannski meiri eftirtekt er að vinstri flokkarnir báðir eða samfylkingarflokkarnir allir eða hvernig við orðum þetta allt saman skila auðu þegar kemur að því að gera eitthvað fyrir heimilin. Það sem er hvað brýnast að gera á síðustu dögum þingsins og verður á næsta kjörtímabili er vitanlega að gefa heimilunum færi á að taka þátt í efnahagslífinu og atvinnulífinu kleift að skapa hér fleiri störf og búa til meiri tekjur fyrir samfélagið. Því tek ég undir það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan um þá stefnu sem Seðlabankinn hefur rekið, það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í það verkefni að lækka vexti þannig að hægt sé að koma hjólum atvinnulífsins af stað um leið og við reynum að koma í veg fyrir að verðbólguruglið haldi áfram eða fari af stað. Þar skiptir miklu máli að menn séu sammála um það til dæmis að hemja verðtrygginguna eins og við framsóknarmenn höfum lagt til (Forseti hringir.) ótal sinnum en ríkisstjórnarflokkarnir, samfylkingarflokkarnir allir saman, hafa ekki haft neinn áhuga á að klára í þinginu.