141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Unni Brá Konráðsdóttur, fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra sömuleiðis. Það víðtæka verkefni sem blasir við okkur, að þjónusta eldri borgara þessa lands af þeirri virðingu og á þann hátt sem þeir eiga skilið, er mikið og stórt og eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði þurfum við kannski að hugsa töluvert út fyrir rammann. Við þurfum að hafa fjölbreytt úrræði og við þurfum að nálgast verkefnið á þann veg að það sé ekki bara eitthvað eitt sem skiptir máli heldur margt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég hef þá trú að verði málaflokkur aldraðra fluttur heim í hérað, á sama hátt og málaflokkur fatlaðra, og heilsugæslan þá munum við ná að samþætta félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar og gera þjónustuna betri en hún er í dag gagnvart þeim borgurum sem á henni þurfa að halda.

Samhliða flutningi á málefnum aldraðra þarf í alvöru að íhuga flutning heilsugæslunnar. Það mun ekki bara bjóða upp á fjölbreyttari úrræði fyrir eldri borgara, það mun líka tryggja öryggi þeirra sem búa í sínum heimabæ að þurfa ekki að fara þaðan ef heilsa og aldur koma í veg fyrir að þeir geti búið á sínu gamla heimili — þ.e. að með einhverjum hætti sé hægt að þjónusta fólk þannig að ævikvöldið verði ekki þyrnum stráð heldur aukum við lífsgæði þeirra sem eldri eru.