141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langar að byrja á að þakka framsögumanni þessa máls, hv. þm. Skúla Helgasyni, fyrir mjög góða og vandaða vinnu þar sem okkur í nefndinni tókst að finna milliveg í mörgum málum og taka á málefnum sem lúta til dæmis að jafnri aðstöðu stjórnmálahreyfinga, eða annarra sem ætla að beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að þeir þurfi ekki að upplifa það sem var í gangi í kringum kosningarnar 2009 þegar framboðum var ekki veitt aðgengi að sjónvarpinu til að kynna stefnu sína. Það hefur verið lagað. Þetta er fyrsta skrefið. Það er mjög margt gott í frumvarpinu en það þarf klárlega að fara í áframhaldandi vinnu til að nútímavæða lögin í kringum Ríkisútvarpið. Það er ekki gert í þessu frumvarpi, eða þessum lögum, en ég styð þetta mál.