141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Hann hefur kannski ekki alveg fylgst með öllu því sem hér fór fram en það er sjálfsagt að endurtaka það.

Fyrst um eftirlit með íslenska bankakerfinu. Vil ég minnka það? Virðulegi forseti. Það er mín reynsla eftir að hafa fylgst með þessu allt kjörtímabilið að eftirlitið er ekki nógu vel skilgreint. Það hefur valdið mér vonbrigðum og ég hef margsinnis kallað Fjármálaeftirlitið til fundar. Ég vonast að vísu til að þetta sé að lagast. Færa má rök fyrir því að augljósar brotalamir séu, ég tengist ýmsu sem ég ætla ekki að fara út í hér. En mér finnst þetta ekki vera nægjanlega skilgreint. Það kom mér til dæmis mjög á óvart þegar seinni gengislánadómarnir féllu, þá var hið risastóra Fjármálaeftirlit algjörlega vanbúið til að takast á við það. Þegar fyrri gengislánadómarnir féllu voru þeir tilbúnir með hvaða áhrif það hefði á bankakerfið o.s.frv., en þrátt fyrir að allir vissu að þetta væri að koma voru menn ekki meðvitaðir um það.

Ég þekki það aðeins af mínum fyrri störfum að fjárheimildir eða því meira sem menn setja peninga í hlutina, það þýðir ekki endilega árangur. Það verður að skilgreina hvað á að gera. Í upphafi þessa kjörtímabils var komið fram með lagafrumvarp um fjármálafyrirtæki og menn sögðu: Við ætlum að koma í kjölfarið strax aftur með þetta. Því það var svo augljóst að það átti að svara nokkrum spurningum. Við erum ekki enn þá búin að því. Sparisjóðirnir eru kannski skýrasta dæmið í því en margt annað mætti nefna.

Hvað vil ég gera varðandi neytendavernd? Hæstv. ráðherra segir að ég viti ekki hvar hún er. Það er vegna þess að enginn veit hvar hún er. Hún er á mörgum stöðum. Ég er bara að taka upp það sem kom fram í nefndinni. Hún er núna hjá Fjármálaeftirlitinu, umboðsmanni skuldara, Neytendastofu, talsmanni neytenda og svolítið hjá Samkeppniseftirlitinu. Ég tel að við eigum að taka þessar stofnanir sem og bankaeftirlit Seðlabankans, skipta þeim upp í tvær stofnanir eða tvo aðila, annars vegar þessa aðila og væntanlega Seðlabankann sem á að hafa (Forseti hringir.) eftirlit með bönkunum, kerfislegu áhættunni o.s.frv., og síðan ætti að vera ein stofnun sem er bara með það að markmiði að vera með neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég held að sú (Forseti hringir.) staða sem komin er upp núna, allt það sem gengið hefur á séu bestu rökin fyrir því að svo eigi að vera.