141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[21:29]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið svolítið hugsi yfir því að þeir sem hafa staðið að undirbúningi þessa verkefnis í mörg ár, sjálfstæðismenn m.a., skuli nú hafa snúist gegn því eða fundið sér einhverjar ástæður til að breyta áherslum og það þurfi að gera hlutina á nýjan hátt. Hér er fyrst og fremst verið að fylgja eftir samþykkt sem gerð var árið 2010 að hausti þar sem var lögð fram áætlun um að fara í þessa framkvæmd og stofna um það félag sem enn á að vera starfandi. Við förum síðan með hana að hluta til í opinbera framkvæmd og gerum grein fyrir því af hverju það þarf að vera.

Forsenda þeirrar framkvæmdar, þegar við samþykktum það í fjárlaganefnd og í þinginu í framhaldi, var að hagræðingin af breytingunni, bara við að færa starfsemina á einn stað, mundi borga kostnaðinn við verkefnið. Það er enn þá hugmyndin. Það að ætla að eyða þessum peningum í allt annað er, eigum við ekki að segja popúlismi eða að reyna að drepa málinu á dreif.

Mér finnst líka forvitnilegt varðandi það sem við erum að vinna að þegar sagt er að hér sé um að ræða að flytja verkefni af landsbyggðinni á Landspítalann. Það er alls ekki. Hér er ekki verið að fjölga rúmum eða færa til verkefni. Fylgt hefur verið þeirri stefnu sem sett var með lögum árið 2007. Því miður fengum við á þeim tíma Kragaskýrsluna þar sem gert var ráð fyrir að færa töluvert af verkefnum inn á Landspítalann. Því hefur ekki verið fylgt eftir að fullu þó að sumt af því hafi komið til framkvæmda, bæði vegna þess að tækni og kröfur hafa gert það að verkum en engu að síður er spítalinn ekki byggður til að færa þangað verkefni utan af landsbyggðinni þannig að ég bið um að það sé ekki sagt.

Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur (Forseti hringir.) að auðvitað eigum við að gæta þess að þjónustan sé dreifð um landið og sé veitt sem víðast innan þeirra skynsemismarka (Forseti hringir.) sem tæknin skapar okkur.