141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

innheimta og ráðstöfun tryggingagjalds.

[11:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Kannski væri ástæða til að hafa sérstakar umræður hér þar sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefði framsögu um aðskiljanleg áhugaefni sín. Það yrði fróðlegt og skemmtilegt.

Það sem ég ætlaði að ræða um er innheimta og ráðstöfun tryggingagjalds og spyr hæstv. fjármálaráðherra hvernig því sé háttað þegar fyrirtæki, launagreiðendur, greiða ekki tryggingagjald eða greiða aðeins hluta tryggingagjalds, og hvaða aðilar gera þetta. Ég veit að þetta er flókin spurning en ég vænti þess að ráðherrann hafi einhver svör. Minna má á að samkvæmt lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, var stigið það skref sem ég hygg að eigi sér ekki fordæmi í sögu tryggingagjaldsins, að veittur var eins konar afsláttur af því að fyrirtæki sem samið er við á grundvelli þeirra samninga, sem mér skilst að séu þrjú eða fjögur, þrjú virk stendur í þingskjali sem nýkomið er inn á þingið, þ.e. að gerðir hafi verið samningar við þau fyrirtæki á grundvelli þessa frumvarps og þau greiði þess vegna aðeins 80% af tryggingagjaldinu.

Ég get nefnt fleiri dæmi og annað þingskjal sem er komið hingað inn, en spurningin er í fyrsta lagi: Þykir fjármálaráðherra þetta æskileg þróun? Í öðru lagi: Hvaða réttar njóta starfsmenn sem samkvæmt hinu almenna tryggingagjaldi eiga að njóta ákveðins réttar í starfsendurhæfingarsjóðum og Fæðingarorlofssjóði, að minnsta kosti, sem eru mjög mikilvægir sjóðir sem veita mikilvæg almenn réttindi?