141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni á ég von á því að þegar hv. nefnd tekur málið til umfjöllunar verði rætt um þátttökuviðmið. Eins og kom fram í máli mínu áðan hefðu formenn annarra flokka fullt færi á að setja slíkar tillögur inn ef vilji þeirra hefði staðið til þess. Ég reikna með því að ef hv. þingmenn hafa áhuga á að ræða þátttöku við mig geti þeir gert það innan nefndarinnar.

Það sem ég benti á er að hægt er að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar með því að mæta ekki. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um að það er ein leið til að hafa áhrif á niðurstöðu lýðræðislegra kosninga, að mæta ekki (PHB: Ég er ekki sammála.) með því að setja þátttökuviðmið og geta þannig haft áhrif á það hvort kosningin hafi áhrif eða ekki. Það eru auðvitað dæmi þess að hópar ákveði að hunsa hreinlega kosningar til að draga úr vægi þeirra eða rýra gildi þeirra. Ég segi það sem áhugamanneskja um lýðræði að mjög mikilvægt er að fyrir hendi sé hvati til að mæta og ég tel að hann sé í raun og veru til staðar þar sem umtalsverður áhugi er á málinu. Það sást í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var í október. Ef við viljum tryggja meiri þátttöku er hægur vandi að gera eins og ég sagði hér áðan og halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða almennum kosningum. Hv. þingmaður sagði: Af hverju að halda hana samhliða almennum kosningum? Ég spyr bara á móti: Af hverju ekki ef við viljum tryggja góða þátttöku í jafnmikilvægu máli? Ég er sannfærð um að þjóðin hefur náð að kynna sér þetta mál betur og setja sig betur inn í það í aðdraganda þess en mörg önnur mál ár og áratugi á undan. Ég tel að við þingmenn ættum að vera ánægð með það.