141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lengd þingfundar.

[11:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði gegn lengd þingfundar af þeirri ástæðu að að meðtöldum deginum í dag eru sjö þingfundadagar eftir í þinginu og enginn tími er gefinn fyrir nefndarfundi nema þá kannski á nóttunni.

Í gærkvöldi voru á dagskrá þrjú fyrstuumræðumál, í dag eru sjö fyrstuumræðumál á dagskrá, frú forseti. Stór og mikil mál sem þurfa verulega umfjöllun umsagnaraðila. Það hefur nú verið gagnrýnt en þingið gefur oft knappan tíma, hálfan mánuð í mál. Hvernig er það hugsað af hálfu stjórnar þingsins að koma þessum tíu fyrstuumræðumálum til samfélagsins til umsagnar og síðan til einhverrar gáfulegrar umfjöllunar í þinginu? Væri ekki nær að reyna að nýta þann tíma sem við höfum í þinginu til þess að fara í þau mál sem við erum sammála um að séu hagnýt og góð (Forseti hringir.) og við höfum flest náð samkomulag um að klára? Þau eru eitthvað á bilinu 10–40 talsins og það veitir bara ekkert (Forseti hringir.) af þeim dögum sem eftir eru af þinginu í það.