141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegur stuðningur.

636. mál
[17:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég fæ spurningu sem ég hef ekki verið búin að hugsa svar við hefur það alltaf hjálpað mér mjög mikið að leita í hugsjónir mínar sem framsóknarmaður og sýn okkar á samfélagið. Ef við ættum að forgangsraða og setja fram stefnu um það hvar við viljum draga úr skerðingum er það alveg skýrt, það stendur einfaldlega í ályktun flokksþings, að við viljum einbeita okkur að því að hvetja fólk til að vinna þannig að þær tekjur sem fólk aflar sjálft, með sínu eigin vinnuframlagi — það sé meiri hvati til að leggja sitt fram til samfélagsins að halda áfram að sinna störfum frekar en að við reynum að draga úr skerðingum sem tengist vinnu fjármagnsins sem hv. þingmaður er hér að tala um.

Mín lífssýn hefur verið sú að það sem gerir lífið fjölbreytt og skemmtilegt er að sjálfsögðu það sem manni þykir vænst um, fjölskyldan, en líka vinnan. Vinnan gefur manni óskaplega mikið. Ég held að það séu einfaldlega röng skilaboð að þvinga fólk til að hætta á ákveðnum aldri þrátt fyrir að það hafi fulla starfsgetu. Og þó að eitthvað dragi úr starfsgetunni og fólk hafi ekki getu til að starfa 100%, þá eigum við ekki að segja við þá einstaklinga: Nei, heyrðu, þakka þér fyrir, við þurfum ekki lengur á framlagi þínu að halda. Ég mundi vilja nálgast þetta á þann hátt.