141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp til ívilnunar vegna uppbyggingar stóriðju á Bakka. Ég vil segja í upphafi ræðu minnar að þó að ég og hv. þm. Mörður Árnason, sem var að ljúka máli sínu hér áðan, verðum kannski seint sammála hvað varðar atvinnuuppbyggingu þá bar hann fram nokkuð margar spurningar sem mér fannst vera réttlátar. Það snýr aðallega að því hvernig staðið er að gerð ívilnunarsamninga eða laga um ívilnanir en það er mjög æskilegt að ekki þurfi að setja sérlög um hvert og eitt verkefni. Það er réttmæt spurning.

Við þekkjum umræðuna um það í gegnum tíðina þegar verið var að gera sérstaka fjárfestingarsamninga sem ekki mátti gefa nema takmarkaðar upplýsingar um vegna þess að um var að ræða viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins, að gæta skyldi hagsmuna og þar fram eftir götunum, þannig að mér finnst margt sem sneri að þessum hlutum hjá hv. þingmanni bara eðlilegar og sanngjarnar spurningar.

Ég vil líka segja að það er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa Norðurþings eða Norðausturlands að þetta mál skuli loksins vera komið fram, því að þetta hefur verið afskaplega löng og mikil þrautaganga hvað varðar atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsveitum. Sveitarfélagið hefur lagt út í mjög mikinn kostnað til undirbúnings þessa verkefnis og ég þarf ekki að telja upp í ræðu minni alla þá steina sem lagðir hafa verið í götu verkefnisins.

Það er hins vegar umhugsunarvert að þetta mál skuli koma fram nánast á síðustu klukkutímum þessa þings, ekki á síðustu dögum heldur á síðustu klukkustundum, því að ég hefði talið að þetta mál hefði getað komið mikið fyrr fram. Það kemur fram í frumvarpinu, þar sem sagan er rakin, og hana þekkjum við, að til stóð að fara í uppbyggingu á álveri þar sem Alcoa kom að málum. Sú atvinnuuppbygging hefði í fyrsta lagi orðið miklu meiri, og starfsemin í kringum það, og fyrirtækið sjálft hefði getað staðið undir innviðauppbyggingu vegna verkefnisins. Það hefði líka verið mun meiri fjárfesting sem hefði skilað sér sem auknar tekjur í ríkissjóð og mun fleiri störf. Eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér áðan, hæstv. forseti, er það kannski grátbroslegt að það hefði líka orðið þetta miklu minni mengun af því að fara í þá framkvæmd. Ég veit ekki hvort maður á að segja að það sé hlægilegt eða hjákátlegt, það skiptir ekki öllu máli, en það er merkilegt í sögu þess hver sá hæstv. ráðherra er sem mælir fyrir málinu. Það er líka ágætt að rifja það upp hér að á árinu 2009, þegar hæstv. ríkisstjórn hafnaði því að framlengja viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers, klöppuðu sumir hv. þingmenn hér í þingsal, þeir hljóta þá að koma og klappa fyrir þessu máli, væntanlega. En svona gerast nú hlutirnir.

Ég var að hugsa það áðan, þegar hæstv. atvinnuvegaráðherra mælti fyrir málinu, að annað yfirbragð hefði verið á hæstv. ráðherra ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu og einhver annar þingmaður hefði mælt fyrir þessu máli um atvinnuuppbyggingu á öðrum stað. Ég hugsa að það hefði verið annar bragur á honum. Og hv. þm. Mörður Árnason kom einmitt inn á það í ræðu sinni þegar hann, ásamt hv. þingmönnum Vinstri grænna, tapaði orustunni um uppbyggingu í Helguvík, það hefði verið gaman að rifja þær ræður upp. En það er nú kannski ekki aðalatriði þessa máls. Við þurfum að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem felast í þessari atvinnuuppbyggingu fyrir íbúa á Norðausturlandi. Þeir hafa beðið eftir þessari atvinnuuppbyggingu í áraraðir eða áratugi.

Ég vil þó aðeins rifja það upp að þegar þáverandi iðnaðarráðherra mælti fyrir lögunum um ívilnanir árið 2010, sem þannig vill til að eru í endurskoðun og í meðförum í hæstv. atvinnuveganefnd, voru stór orð látin falla um að nú væri tími svokallaðra sérlaga, sérlausna, sérsamninga, liðinn. Það væri allt uppi á borðum og allir gætu gengið að því vísu hvernig að hlutunum væri staðið. Svo kemur þetta fyrsta mál um atvinnuuppbyggingu — og hvað er þá gert? Þá eru flutt um það sérlög. Það væri mjög æskilegt, eins og ég sagði í upphafi, og tók undir þær spurningar sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á í ræðu sinni, að við hefðum lögin um það hvernig staðið væri að málum algjörlega skýr. Hér er reyndar ekki verið að gera fjárfestingarsamninga þannig að ekki er hægt að kvarta yfir því að verið sé að halda upplýsingum leyndum, það ber að koma því á framfæri, sem var viðloðandi hér áður fyrr og var auðvitað ekki ásættanlegt, það ber vissulega að fagna því.

Þau tvenn lög sem eru hér til umræðu bæði í einu og hæstv. ráðherra mælti fyrir — ég geri engar athugasemdir við það — fjalla um þær ívilnanir sem þetta verkefni, atvinnuuppbyggingin á Bakka, mun njóta. Það er annars vegar ívilnun af hendi ríkissjóðs, þar sem ríkissjóður kemur að málum, og hins vegar sveitarfélagsins. Svo að ég hlaupi á helstu staðreyndum málsins er gert ráð fyrir að fyrirtækið verði með 15% tekjuskattshlutfall í staðinn fyrir 20%, eins og gert er ráð fyrir í núverandi lögum; að félagið greiði engin gjöld af stimpilskyldum skjölum sem það hefur gefið út eða stofnanir í tengslum við uppbyggingu viðkomandi fjárfestingarverkefnis í stað þess að greiða um 0,15%; að félagið fái 50% afslátt af fasteignagjöldum í stað 30% afsláttar sem er í lögunum frá 2010; og að félagið verði undanþegið almenna tryggingagjaldinu í stað þess að fá 20% afslátt af gjöldunum. Einnig er félaginu heimilaður frádráttur frá sköttum og gjöldum í 14 ár í stað 13 ára frá undirritun samnings eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. laganna frá 2010, en þó aldrei lengur en í 10 ár frá því skattskylda eða gjaldskylda myndast hjá félaginu.

Ef þetta er aðeins sett í samhengi eru ívilnanir sem ríkið veitir til verkefnisins vegna frávika frá sköttum og gjöldum, þ.e. lægra tekjuskattshlutfall og undanþága frá almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi, áætlaðar um 1–1,5 milljarður kr. á öllu tímabilinu. Hvað varðar sveitarfélögin er áætlaður tekjumissir annars vegar, miðað við að engar undanþágur væru veittar, 500 til 550 milljónir og það sem snýr að höfninni er 400 til 450 milljónir. Þetta eru í grófum dráttum þær útlínur sem snúa að þeim ívilnunum sem þetta fyrirtæki fær.

Ég vil staldra aðeins við það sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. atvinnuvegaráðherra áðan og ég set spurningarmerki við það vegna þess að ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum í fjárlögum ársins 2013 í þetta verkefni. Við gagnrýndum það töluvert í umræðum um fjárlögin fyrir árið 2013 þar sem í hagvaxtarspánni var gert ráð fyrir — það kom mjög skýrt fram þegar Hagstofan kynnti hagspána fyrir árið 2013 sem er grunnurinn að tekjuhluta fjárlaganna — þeirri atvinnuuppbyggingu sem færi af stað á Bakka og þeirri innviðauppbyggingu sem því fylgdi á seinni hluta ársins. Þá gerðum við harðar athugasemdir við að gera þyrfti ráð fyrir útgjaldaliðnum á móti þannig að fjárlögin væru ballanseruð, ef ég má nota það orð, þ.e. að líka væri gert ráð fyrir þeim útgjöldum sem búast mátti við.

Það er umhugsunarvert hvort gert hafi verið ráð fyrir meiri framkvæmdum í hagvaxtarspánni hjá Hagstofunni en hér um ræðir, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. En útgjöldin sem reiknað er með að verði á þessu ári eru um 100 millj. kr. Það fer aðallega í undirbúning, síðan eru fjárfestingin og útgjöldin á árinu 2014, 2015 og 2016, þ.e. ekki á því fjárlagaári sem nú er um að ræða. Það er því þess virði að það sé athugað hvernig það hefði verið reiknað í hagspánni sem er tekjuhluti fjárlaga.

Ég staldra líka við það sem fram kemur í athugasemdum og ábendingum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og það er eiginlega hálfgerð fullyrðing. Svo að ég noti rétt orðalag, virðulegi forseti, þá stendur hér:

„Vandséð er að sú fyrirætlan frumvarpsins að annar ráðherra en fjármála- og efnahagsráðherra veiti lán úr ríkissjóði samrýmist forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta.“

Þetta snýr líka að uppbyggingunni gagnvart innviðunum sem við vitum að er á hendi innanríkisráðuneytisins, það sem snýr að vegagerð og hafnargerð.

Samþykkt þessa frumvarps, þó málið hangi í raun allt saman, felur í sér samþykkt þeirra ívilnana sem ríkið ætlar að fara út í og hins vegar nauðsynlegar breytingar á lögum sem snúa að sveitarfélaginu, þannig að sveitarfélagið megi líka gera þær ráðstafanir sem hér um ræðir til að geta uppfyllt samninga hvað varðar þessa atvinnuuppbyggingu.

Ég hefði ekki séð þörf á því að flytja nema frumvarpið sem snýr að þessum hluta og geyma það sem snýr að innviðauppbyggingunni og framkvæmdunum plús það sem snýr að ríkjandi láni til hafnarsjóðs. Að mínu viti hefði það ekki verið neitt mál að geyma það fram á haustið vegna þess að ekki er verið að veita fjármagn, fjárheimildir, inn í það nema 100 milljónir sem þá er spurning hvernig eigi að gera. Það hlýtur þá að koma inn í fjáraukalög í haust, þær 100 milljónir sem reiknað er með á árinu 2013. Ég hefði því ekki séð neitt því til fyrirstöðu að menn flyttu í framhaldinu inn í fjárlagagerðina 2014 þessa hluti hér.

Í framhaldi af því veltir maður því fyrir sér — þó að ég ætli ekki að gera ágreining um það, þá er það auðvitað umhugsunarvert fyrir okkur — að hæstv. atvinnuvegaráðherra lagði til í lok ræðu sinnar að málið gengi til atvinnuveganefndar. Það er eðlilegt, það sem snýr að ívilnunum og þeim hlutum sem þar eru, en þá vaknar líka sú spurning ef menn líta þannig á að þeir séu að klára allt málið, sem ég er reyndar ekki alveg sammála. Það gefur augaleið að ekki er hægt að taka ákvörðun fyrr en á næsta þingi, fjárlagaárið 2014, og strax hefði vaknað upp sú spurning hvort atvinnuveganefnd mundi senda málið til umsagnar til hv. fjárlaganefndar og hv. umhverfis- og samgöngunefndar, það sem snýr að þeim tveimur þáttum sem klárlega heyra undir þau fagráðuneyti sem þessar nefndir fjalla um — umhverfis- og samgöngunefnd fjallar í flestum tilfellum um þau málefni sem snúa að innanríkisráðuneytinu og fjárlagaþættir málsins snúa að hv. fjárlaganefnd. Við þurfum að hugsa þetta, en eins og ég sagði geri ég ekki efnislegar athugasemdir við það. Ég hefði ekkert séð því til fyrirstöðu gagnvart málinu að það yrði gert með þessum hætti að þetta frumvarp kæmi um ívilnanir og síðan hefði málið komið inn í haust og tekin ákvörðun um hvernig hægt væri að gera þetta.

Það byggir kannski líka undir þessa hugsun að við þurfum að bíða. Af því að fram kemur að þetta víkjandi lán til hafnarinnar er í raun og veru styrkur þurfum við að bíða álits frá ESA um það hvort þetta geti fallið undir víkjandi lán eða styrk. Þannig að þessi spurning kallar líka á það.

Ég ætla ekki að gera ágreining um þá hluti hér, vil bara nota síðustu sekúndurnar til að fagna því að þetta mál hafi komið fram. Það hefði mátt koma fram miklu fyrr en við skulum horfa til framtíðar en ekki festast í fortíðinni þó að það geri oft æði margir. Þetta gefur von eftir langa bið íbúa á Norðausturlandi eftir atvinnuuppbyggingu, veitir von inn á það svæði og ég fagna því að það sé gert með þessum hætti. Ég vil að lokum segja að það er mín skoðun að ræða þurfi það mjög alvarlega að hér gildi almenn löggjöf um það hvernig staðið er að ívilnunum til uppbyggingar.