141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

uppgjör þrotabúa gömlu bankanna.

[10:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra: Eru einhverjar viðræður, óformlegar eða formlegar, á milli stjórnvalda, Seðlabankans, kröfuhafa og/eða slitastjórna um uppgjör þrotabúanna? Hafa verið fengnir færustu sérfræðingar heims til að tryggja hagsmuni þjóðarinnar í þessu stærsta einstaka máli hennar eða eru embættismenn Seðlabankans og ráðherrar í þessum hugsanlegu viðræðum, eða kannski ekki í neinum viðræðum? Þegar að þessu kemur, mun ráðherrann tryggja að allir hennar ráðherrar og embættismenn standi með þjóð sinni og gæti hagsmuna hennar?