141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst hann ramma málið ágætlega inn, þ.e. mikilvægi þess að starfsumhverfi fyrirtækjanna væri þannig að ekki þyrfti að grípa til þeirra ráðstafana sem hér er verið að gera. Mér þótti athyglisvert það sem hv. þingmaður kom inn á í sambandi við ráðgjöf fyrir fyrirtækin því að auðvitað þarf að vera mikill hvati fyrir hendi, það þarf að hvetja fólk til að stofna fyrirtæki.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir þessi mál. Oft er það ekki metið hversu mikils virði litlu og meðalstóru fyrirtækin eru. Hv. þingmaður kom inn á að þau fyrirtæki hafa jafnvel ekki efni á því að leita sér þeirrar ráðgjafar sem nauðsynleg er þegar þau eru að hefja rekstur og eins þegar þau lenda í ákveðnum aðstæðum o.s.frv. Allir vita að atvinnuuppbygging og atvinnusköpun eru undirstaða alls, hvort heldur sem það er velferðarkerfið eða menntakerfið eða hvað sem er og ekki vantar hugmyndir hjá stjórnmálamönnum um að eyða peningunum. En þeir hafa hins vegar oft minni áhyggjur af því hvernig á að afla þeirra. Það eru bara einhverjir aðrir sem eiga að sjá um það. Síðan geta þeir tekið ákvarðanir um að hækka skatta eða gert hvað sem þeir vilja, en það vantar mun meiri hvatningu til þess að einstaklingar stofni fyrirtæki. Það er grunnurinn að stofnun fyrirtækja.

Mig langar að spyrja hv. þingmann betur út í hvort hún hafi fyrst og fremst verið að hugsa um lítil og meðalstór fyrirtæki, þ.e. að koma þeim af stað, því að þau eru auðvitað mjög mikilvæg í öllu samhenginu.