141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[14:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir andsvarið. Það er algjörlega á hreinu að forgangsröðun framsóknarmanna á næsta kjörtímabili verður að sjálfsögðu heimilin og atvinnulífið. Það er lykilatriði. Þegar kemur að því er fátt sem skiptir okkur meira máli en að tryggja að skattumhverfi og lagaramma hins opinbera sé með þeim hætti að við styðjum við atvinnustarfsemi á Íslandi. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi í fyrra andsvari sínu dæmi um fiskvinnslur og hversu margir væru jafnvel að vinna sömu verkin. Það er eitt af því sem ég tel alveg tvímælalaust að við þurfum að fara yfir. Með einföldun erum við ekki að segja að við ætlum að draga úr gæðakröfunum heldur að tveir eða þrír menn þurfi ekki að að vinna sömu verkin, t.d. að sjá um eftirlit. Lengi hefur verið rætt innan Framsóknarflokksins hvort möguleiki sé á því að vera með það sem við getum kallað eina sjoppu, „one shop“, þar sem maður stoppar bara á einum stað og getur gengið frá þeim plöggum og umsóknum sem maður þarf að ganga frá þegar maður stofnar nýtt fyrirtæki. Maður þurfi þá ekki að eiga í samskiptum við marga opinbera eftirlitsaðila eða jafnvel mörg ráðuneyti.

Áður en ég settist á Alþingi kynntist ég því aðeins hvernig málum er háttað varðandi fiskeldi. Þar var alveg sláandi hversu margir snertifletir virtust vera við hið opinbera ef maður vildi fara af stað með fiskeldi. Sama hefur verið nefnt t.d. varðandi umhverfismat. Það er enginn að segja að við eigum ekki að fara með verkefni í umhverfismat, en það (Forseti hringir.) á að vera skýr tímarammi þannig að fyrirtæki geti gert sínar áætlanir.