141. löggjafarþing — 96. fundur,  9. mars 2013.

gjaldeyrismál.

668. mál
[14:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég árétta að gefnu tilefni að ég held að umgjörðin utan um þessa mikilvægu aðgerð um þetta mikilvæga mál, afnám fjármagnshaftanna og uppgjör gömlu bankanna, sé eftir atvikum eins traust og vel fram sett hér og kostur er á í núgildandi löggjöf. Yfirstýrinefndin um afnám gjaldeyrishaftanna er skipuð fjármála- og efnahagsráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Henni til aðstoðar er sérfræðinganefnd. Þverpólitíska nefndin með fulltrúum þingflokkanna starfar áfram. Í texta frumvarpsins sem hér er að verða að lögum er rækilega tryggð umgjörðin um reglusetninguna sem slíka. Þegar við bætist upplýsingagjöf til Alþingis um efnahagslega þætti málsins vil ég meina að hér sé eins tryggilega um þetta búið og kostur er.

Vonandi tekst þar af leiðandi áfram að standa að þessum málum í góðri sátt. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðarbúið og ekki á hverjum degi sem Alþingi hlotnast sú gæfa að standa svona vel saman um mikilvægt mál.