141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[12:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Grundvöllur þeirrar tillögu um vantraust á ríkisstjórnina sem hér liggur fyrir byggist á óánægju flutningsmanns með framgang þeirrar vinnu sem unnin hefur verið að nýrri stjórnarskrá í þinginu. Hún er borin fram í þeirri trú að tillögur til nýrra stjórnarskipunarlaga muni ekki ná fram að ganga að neinu leyti á yfirstandandi þingi. Í henni felst sú fullyrðing að stjórnarþingmenn muni ekki eða vilji ekki gera þær breytingar á stjórnarskránni sem kallað hefur verið eftir og lagt hefur verið upp með.

Tillagan er yfirlýsing flutningsmanns hennar og stuðningsmanna um að betra sé að slá af allar hugmyndir um nýja og betri stjórnarskrá en reyna til þrautar að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þingsins í þeim efnum. Tillagan felur í sér að ekki verði gerðar breytingar á stjórnarskrá Íslands í þá veru sem lagt hefur verið til að gerðar verði, hvorki nú né í nánustu framtíð.

Að þessu sinni er vantraustsvopninu hins vegar beitt í ranga átt og af þeim sem síst skyldi. Hér er hlutunum snúið á hvolf og lagt til að þeim sem harðast hafa barist fyrir því að þjóðin fái á endanum að setja sér nýja stjórnarskrá verði vikið frá og þeir sviptir umboði sínu til að leiða málið til lykta. Það sem þó verra er og umhugsunarverðara er að um leið og það gerist verður hörðustu andstæðingum allra breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins, þeim hinu sömu sem ávallt og alla tíð hafa reynt að koma í veg fyrir breytingar ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, falið allt vald í því máli sem hér um ræðir, þ.e. um breytingar á stjórnarskránni.

Andstæðingar nýrrar stjórnarskrár gleðjast skiljanlega yfir vantrauststillögu líkt og þeirri sem hér um ræðir sem þeir sjálfir höfðu þó ekki burði í sér til að flytja. Með því að samþykkja tillöguna eygja þeir líka von um að geta endanlega og fyrir fullt og fast slegið allar hugmyndir af um breytingar á stjórnarskránni. Það yrði hins vegar í hrópandi andstöðu við vilja flutningsmanns tillögunnar og þvert á hug hans gagnvart málinu eins og hann hefur birst okkur í þinginu í umræðu um málið. Þar hefur hv. þm. Þór Saari ekki legið á liði sínu við að þoka málinu áfram með rökföstum, einbeittum og heilsteyptum málflutningi sínum gegn þeim sem vilja með öllum ráðum stöðva það. Þannig vinnast einmitt stór mál; með þrautseigju og dugnaði þeirra sem að þeim standa og eru tilbúnir til að fylgja þeim til enda. Það er því ekki hægt með nokkru móti að efast um vilja þingmannsins um nauðsyn þess að leggja tillögur að nýrri stjórnarskrá til endanlegrar afgreiðslu hjá þjóðinni sjálfri sem mun þá ráða örlögum sínum í þeim efnum eins og vera ber.

Samt liggur hér fyrir tillaga sem gerir drauminn um nýja stjórnarskrá að engu verði hún samþykkt, líkt og flutningsmaður hennar hv. þm. Þór Saari leggur til að verði gert. Tillagan er ekki aðeins vantraust á ríkisstjórn Íslands. Hún er vantraust á alla þá góðu vinnu sem þúsundir Íslendinga hafa lagt af mörkum við að semja nýja stjórnarskrá. Verði tillagan samþykkt mun stóra lýðræðistilraunin á Íslandi þar sem heil þjóð, óháð stjórnmálaskoðunum, alls staðar úr samfélaginu um landið þvert og endilangt, frá sveit til sjávar, lagði fram sína eigin tillögu að nýrri stjórnarskrá fyrir landið sitt. Allir þjóðfundirnir eru þá farnir fyrir lítið. Frábært og óeigingjarnt starf stjórnlagaráðs hefur þá til einskis verið unnið og vilji kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni að engu gerður. Það væri sömuleiðis þvert gegn vilja Þórs Saaris eins og ég skil hann og þvert gegn vilja stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar að koma ríkisstjórninni frá með þeirri tillögu sem við ræðum hér.

Í öllum atkvæðagreiðslum munu einhverjir fá vilja sínum framgengt á meðan aðrir þurfa að sætta sig við niðurstöðu sem er ekki þeim eins að skapi. Þannig er það alltaf og þannig virkar lýðræðið. Það sama á við um þá atkvæðagreiðslu sem fram fer á eftir um þessa tillögu. Við vitum hverjir munu gleðjast yfir því ef þeim hefur tekist að koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og fagna sigri ef þannig fer. Við hin sem erum að leggja okkur fram um að svo fari ekki og ný stjórnarskrá verði að endanum að veruleika verðum þá hins vegar væntanlega heldur lúpuleg og framlág. Við verðum þá saman í tapliðinu, ég og hv. þm. Þór Saari.

Það yrðu gríðarleg mistök að stöðva stjórnarskrármálið í atkvæðagreiðslu hér á eftir. Það fylgir því mikil ábyrgð að kasta þessu máli öllu frá sér þegar endaspretturinn einn er eftir. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á því.

Ég vil ljúka þessu máli, ég vil leiða það til lykta eins og best verður á kosið og fela þjóðinni síðan að endingu að gera upp hug sinn um nýja stjórnarskrá. Þjóðin á það svo sannarlega skilið eftir allt það sem á undan er gengið.