141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[13:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er hægt að velta því fyrir sér af hverju komið sé með vantrauststillögu þegar þingið á að ljúka störfum í þessari viku samkvæmt starfsáætlun.

Tilefni þessarar tillögu er stjórnarskrármálið og ég held að hægt sé að ná samstöðu um breytingar á stjórnarskránni. Ég held að í þessum sal sé hægt að ná breiðri samstöðu þvert á flokka um breytingar á stjórnarskránni. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að síðustu daga þingsins ættum við að leggja miklu þyngri og meiri áherslu á málefni eins og stöðu heimilanna og atvinnuuppbyggingu. Það hefur til að mynda verið sárt að fylgjast með því hvernig skuldastaða heimila og annað því um líkt hefur nánast ekki fengið neina athygli stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar á þessum síðustu dögum og vikum þingsins. Hrægammasjóðir eiga orðið bankakerfi landsins. Það hefur ekki verið vilji til þess að setja þak á verðtrygginguna á þessu kjörtímabili þrátt fyrir að hugmyndir þar að lútandi hafi komið frá Framsóknarflokknum, Hreyfingunni og fleiri flokkum á þinginu.

Við höfum horft upp á það að skorið hefur verið gríðarlega niður í heilbrigðiskerfinu. Landspítali – háskólasjúkrahús hefur tekið á sig 20–30% niðurskurð frá hruni og við sjáum að flótti starfsfólks heldur áfram úr heilbrigðiskerfinu til útlanda. Við höfum líka horft upp á það að skorið hefur verið gríðarlega niður í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, til heilbrigðisstofnana í hinum dreifðu byggðum landsins.

Í alþjóðlegum samanburði hefur umgjörð í kringum íslensk fyrirtæki dalað mjög mikið á síðustu árum eftir hrun og gerir það enn ár frá ári. Það stafar meðal annars af pólitískri óvissu, sem er að verða vaxandi neikvæður þáttur í atvinnurekstri, og tíðum skattkerfisbreytingum. Í alþjóðlegum samanburði föllum mjög hratt niður og það er mikið áhyggjuefni fyrir Ísland.

Íslendingar hafa þó á þessu kjörtímabili getað sýnt mikla samstöðu. Það sýndi þjóðin í Icesave-málinu. Þar sýndi hún mikla samstöðu og þar sýndum við þá festu sem getur búið í íslensku samfélagi. Það er þessi sama staðfesta sem þarf að sýna í stórum og mikilvægum málum eins og atvinnumálum og skuldamálum heimilanna. Það þarf staðfestu í þessum málum. Við þurfum í þinginu og utan þingsins að leita meiri sátta í stórum málum. Forsenda endurreisnar íslensks samfélags er aukin sátt og aukin samstaða. Sáttin hlýtur þá að byggja á því að við ætlum í sameiningu að byggja landið.

Höfum það til hliðsjónar að við lok næsta kjörtímabils lætur nærri að Ísland hafi verið fullvalda í 100 ár. Ef við horfum til baka í þann reynslusjóð sem þessi tími er, lærum af honum og horfum til þess góða sem gerðist á þessum tíma, einbeitum okkur að öðrum vinnubrögðum, tökum höndum saman í auknum mæli, höfum við mikla möguleika á því að gera Ísland að einu eftirsóknarverðasta landi í heimi til að búa í. Við Íslendingar eigum gríðarleg sóknarfæri og við nýtum þau ekki nema um það myndist breið sátt og ekki bara á Alþingi, heldur líka úti í þjóðfélaginu. Alþingi er fyrirmyndin og við eigum að leita eftir því að mynda breiða sátt, hvort sem er í þeim stóru málum sem ég nefndi eða breytingum á stjórnarskrá.

Sú vantrauststillaga sem verið er að ræða hér snýr að því hvort Alþingi sé tilbúið að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Þann þátt í tillögunni sem fyrir liggur styð ég. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og málefnaáherslur í stórum málum á þessu kjörtímabili sýna að það er full ástæða til að styðja þann þátt þingsályktunartillögunnar sem snýr að því að lýsa vantrausti á þessa ríkisstjórn.