141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

uppbygging hjúkrunarrýma í Hafnarfirði.

[16:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil draga það fram sem allir vita og er því miður þau sorgartíðindi að hjúkrunarrýmum á kjörtímabilinu hefur fækkað og það nokkuð. Biðlistar eru langir og þeir lengjast enn. Sjúkrahúsin eru núna full af fólki sem bíður eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili. Ég veit til dæmis að 1/3 af sjúkrarúmum á Selfossi eru núna notuð fyrir fólk sem þarf að komast á hjúkrunarheimili sem er svo brýnt að byggja upp.

Í því samhengi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um fyrirhugaða uppbyggingu í Hafnarfirði, 60 rýma hjúkrunarrýmisuppbyggingu á Völlunum sem menn hafa rætt um að fara af stað með. Það er rétt að draga fram að í fjárlögum þessa árs er enn þá ekkert um það hvernig eigi nákvæmlega að veita fjármagn í þá uppbyggingu, en gott og vel.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann geti hugsað sér uppbyggingu á Sólvangi í Hafnarfirði, ekki síst í ljósi þess að nú eru breyttar forsendur. Hjúkrunarrýmum hefur ekki bara fækkað á kjörtímabilinu heldur eru í raun aðrar forsendur uppi nú en voru á sínum tíma þegar tekin var ákvörðun um uppbyggingu á Völlunum. Í skýrslunni frá árinu 2006, sem snertir m.a. Sólvang í Hafnarfirði, er gert ráð fyrir því að framtíð Sólvangs verði tryggð.

Þess vegna vil ég í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra: Getur hann tekið undir með mér að ekki sé rétt að loka þessu máli fyrr en við erum búin að tryggja uppbyggingu á Sólvangi? Verður kannað hvort sá kostur að byggja upp á Sólvangi verður tekinn fram yfir þann að byggja upp á Völlunum, ekki síst í ljósi þess að á Sólvangi er heilsugæsla fyrir? Í kringum Sólvang er m.a. Höfn, íbúðir fyrir aldraða og aðstandendur þeirra sem eru á Sólvangi. Er ekki skynsamlegra að fara betur yfir forsendurnar og skoða hvort ekki sé raunhæfara og hagkvæmara fyrir ríkið að byggja upp á Sólvangi þar sem þjónustan er til staðar en á Völlunum? (Forseti hringir.) Fyrir utan það að ekki er rétt að fara af stað með framkvæmdina á Völlunum fyrr en framtíð Sólvangs verður algjörlega tryggð.