141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

tollalög o.fl.

608. mál
[16:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Allt kjörtímabilið hefur verið kallað eftir því að hæstv. ríkisstjórn reyndi að leggja sitt af mörkunum til að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins. Á síðustu dögum kjörtímabilsins leggur hæstv. ríkisstjórn sitt af mörkunum í þeim efnum með því að fresta nokkrum gjalddögum. Það er atvinnustefnan í hnotskurn.

Nú verður hins vegar að viðurkenna að þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona frumvarp kemur fram á þessu kjörtímabili. Það hefur verið fastagestur í sölum Alþingis. Það er í raun og veru atvinnustefna hæstv. ríkisstjórnar, að fresta gjalddögum af því að verið er að viðurkenna að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna er ekki sem skyldi. Þótt málið hafi ekki hreyft við andagift hv. þingmanna Samfylkingarinnar varpar það engu að síður ákveðnu ljósi á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Hún er: Frestum vandanum.