141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við vorum áðan að funda í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og ágætt að fá smájarðtengingu þegar við fáum aðila sem best til þekkja til að upplýsa hv. nefnd um stöðu mála. Við fórum yfir skattamál og þar voru allir helstu sérfræðingar landsins í skattamálum sem upplýstu okkur um að skattsvik og skattundanskot hafi stóraukist, upplýstu okkur um að tilfinning þeirra væri sú að skattar væru orðnir það háir að réttlætanlegt væri orðið að borga þá ekki. Þeir upplýstu okkur um að skattkerfið væri orðið svo flókið að það væri sérstakt vandamál í sjálfu sér. Rifjað var upp að við settum af stað staðgreiðslukerfi á sínum tíma með það að markmiði að einfalda skattkerfið. Síðan hafa menn jafnt og þétt á hinu háa Alþingi, og aðallega á síðasta kjörtímabili, flækt skattkerfið.

Tekið var dæmi um að nú eru komnar beiðnir, spurningar, hvort hægt sé að lækka laun hjá fólki um 7 þús. kr. og greiða í staðinn samgöngustyrk sem samþykktur var hér fyrir stuttu síðan. Ég er ekki að biðja um að við verðum öll sammála. Ég er algerlega meðvitaður um að misjafnar skoðanir eru á því hvort skattar eigi að vera háir eða lágir. En getum við ekki sameinast um það í það minnsta að hafa skattkerfið einfalt? Hver hagnast á því að hafa skattkerfið flókið? Er það eitthvert sérstakt markmið að færa verkefni til þeirrar ágætu stéttar (Forseti hringir.) endurskoðenda og fleiri slíkra starfsstétta? Er það markmið í sjálfu sér? (Forseti hringir.) Ég veit að það er svo mikið að gera hjá þeim (Forseti hringir.) að þeir vilja ekki fleiri verkefni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)