141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þingmanna um skattkerfið áðan vil ég bara segja að markmiðið er að hafa skattkerfið réttlátt og dreifa byrðunum með réttlátum hætti. Einfaldara skattkerfi er ekki endilega réttlátara skattkerfi.

Frétt sem birtist í Fréttablaðinu í dag um að lífríkið í Lagarfljóti sé á vonarvöl og líf þar nánast búið er verulegt áhyggjuefni. Fiskur er að hverfa úr fljótinu og sá fiskur sem þó er eftir er horaður, er haft eftir heimamönnum. Fuglalíf á svæðinu mun skaðast af þessum miklu breytingum á lífríkinu. Þessar alvarlegu fréttir af umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar leiða hugann að umræðum sem áttu sér stað í þessum sal um rammaáætlun í fyrra. Þar var einmitt lagt til og samþykkt sú skynsamlega tillaga að gefinn yrði tími til frekari rannsókna á neðri hluta Þjórsár vegna athugasemda um áhrif virkjananna á lífríkið.

Það er eðli virkjunarframkvæmda að þær valda umhverfistjóni sem í afar fáum tilfellum er afturkræft þótt úr því megi draga að einhverju leyti með mótvægisaðgerðum. Í því ljósi er ekki skynsamlegt að haga vinnubrögðum við skipulagningu orkunýtingar með þeim hætti að um sé að ræða einhvers konar kapphlaup. Rétt er að fara með fullri gát í þessum efnum.

Með samþykkt rammaáætlunar var stigið ótvírætt framfaraskref í náttúruvernd og umgengni við landið. Fréttir af alvarlegu ástandi á lífríki Lagarfljóts minna okkur á mikilvægi þess að rannsaka vel, gefa okkur tíma og hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi þegar landsvæði eru nýtt til orkuöflunar.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að hvetja til þverpólitískrar samstöðu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Allir flokkar hafa sagst vera hlynntir því og mikill meiri hluti samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að svo skyldi vera. Okkur ber skylda til að svara þessu kalli fólksins í landinu og nú þurfa forustumenn stjórnmálaflokkanna (Forseti hringir.) að setjast niður, sýna samstarfsvilja og semja um lendingu stjórnarskrármálsins til afgreiðslu á þessu Alþingi. (Gripið fram í.)