141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[13:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmenn um að fylgjast með þingstörfum.)

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki oft hægt að saka mig um að fylgjast ekki með þingstörfum en það er auðvitað mikilvægt að það sé hljóð í salnum svo menn heyri þegar þeir eru kynntir í ræðustól. (Gripið fram í: Rétt.) En það er hins vegar oft erfitt fyrir hæstv. forseta að tryggja það miðað við hvernig spennan er hjá stjórnarliðum sem rýna í skoðanakannanir meira og minna alla daga og sjá að annar hver þeirra er að fara út af þingi. Eins og við vitum eru margir hv. stjórnarþingmenn uppteknir af skoðanakönnunum.

Þá ætla ég að ræða það mál sem við erum í 3. umr. um, frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Ég hef gert að umtalsefni í þeim umræðum sem hér hafa farið fram fjárlagahlið þessa máls, þ.e. þá útgjaldaaukningu sem verður hjá ríkissjóði verði frumvarpið að lögum sem allt bendir til. Þær tölur hafa verið nokkuð á reiki því að fyrst var gert ráð fyrir að þetta væru um 870 millj. kr. en síðan hefur komið í ljós í meðförum nefndarinnar að búið var að gera ráð fyrir tveimur breytingum frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram og í raun og veru eftir að fjárlögin voru samþykkt. Það var annars vegar 70 millj. kr. eðlileg leiðrétting vegna þess að færri lögaðilar munu greiða útvarpsgjaldið, það voru auðvitað eðlileg viðbrögð, og hins vegar kom við gerð fjárlaganna breytingartillaga frá efnahags- og viðskiptanefnd þar sem tekin var úr gildi eða sambandi 4,6% hækkun á útvarpsgjaldi og var í raun verðlagsáhrifin á frumvarpið. Það var fallið frá þeirri hækkun í breytingartillögum frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem gerði að verkum að 190 millj. kr. komu til viðbótar við tekjuskerðinguna og áætluð útgjaldaaukning lækkaði sem því nemur. Munurinn er því um 260 millj. kr. á fjárlagafrumvarpinu og síðan fjárlögum eftir að þau voru samþykkt af þinginu.

Því til viðbótar hefur komið fram hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd að skerðingar á möguleikum Ríkisútvarpsins til að afla sér auglýsingatekna eru metnar á í kringum 400 millj. kr. Eftir umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd liggur fyrir að raunútgjaldaaukningin til Ríkisútvarpsins miðað við reksturinn sem slíkan er rúmlega 200 millj kr. en ekki 600 millj. kr. eins og áætlað var í upphafi. Ég vil koma þessu að vegna þess að það er auðvitað mikilvægt að við höfum þessar upplýsingar þegar við ræðum málið. Eigi að síður verður útgjaldaaukning ríkissjóðs, ef af samþykkt þessa frumvarps verður, um 600 millj. kr. eða 610 millj kr. Það fer 610 millj. kr. meira í rekstur Ríkisútvarpsins ef þetta frumvarp verður að lögum. Ég er líka búinn að fara yfir, svo allrar sanngirni sé gætt, að það verða líka tekjuskerðingar hjá Ríkisútvarpinu þó svo að hv. þingmenn hafi mismunandi skoðanir á því hvort þær gangi eftir eins og þær eru metnar. Ég hef ekki forsendur til að meta það sjálfur. Raunútgjaldaaukning til Ríkisútvarpsins er í kringum 200 millj. kr.

Ég hef haldið því fram í þessari umræðu að mér finnist þetta staðfesta í raun það sem ég hef haldið fram, að það eigi að setja Ríkisútvarpið eins og aðrar stofnanir ríkisins og sem flestar á sérfjárlaganúmer í stað þess að það fái markaðan tekjustofn. Ég er algerlega mótfallinn þeirri breytingu sem lögð er til, að útvarpsgjaldið renni allt til Ríkisútvarpsins. Ég er hins vegar algerlega sammála því að það þarf auðvitað að skilja Ríkisútvarpið frá pólitískum áhrifum, að það geti ekki verið beitt pólitískum þrýstingi með undirliggjandi hótun um að skerða fjárframlög til þess. Ég held að við séum öll sammála um það. Ég er hins vegar ekki sammála þeim rökum, þótt ég beri virðingu fyrir skoðunum annarra, að sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé betur tryggt með mörkuðum tekjustofnum. Af hverju segi ég það? Það er mjög einföld ástæða fyrir því. Það er vegna þess að í fyrsta lagi er það ákveðið í þessum sal hvaða einstaklingar þurfa ekki að greiða útvarpsgjaldið. Sú ákvörðun snýr til að mynda að aldri fólks og síðan eru ellilífeyrisþegar og öryrkjar undanþegnir þannig að Alþingi kemur auðvitað að þessu á hverjum tíma.

Síðast en ekki síst gefur augaleið að með því sem gerðist í meðförum þingsins, hjá efnahags- og viðskiptanefnd, þegar ákveðið var að taka út verðlagsforsendurnar vegna hækkunar á útvarpsgjaldinu til að hlífa heimilum við hækkun á verðtryggðum lánum, og nóg er nú samt, er verið að grípa inn í þetta ferli. Ég skil ekki þau rök að það sé meira sjálfstæði fyrir Ríkisútvarpið að fá tekjustofninn beint, markaðan tekjustofn, en að vera á sérfjárlagalið. Það segir sig sjálft og það vita allir sem hafa komið að rekstri að því fyrr sem maður hefur ákveðnar hugmyndir um það hvernig fjárframlög verða fyrir næsta ár, því betra. Svo ég tali nú ekki um það sem ég er farinn að líta á sem einhvers konar brandara, ég verð að viðurkenna það, þegar sumir hv. þingmenn tala um að við eigum að feta okkur inn á þá braut að hafa svokölluð rammafjárlög. Það er auðvitað mjög skynsamleg stefna að gera áætlun lengra fram í tímann. En þegar maður tekur þátt í umræðum er útgjaldaaukning í hverju málinu á fætur öðru komin í tugi milljarða, bara núna á þessu vorþingi. Við erum ekki að tala um einhverjar milljónir eða hundruð milljóna heldur tugi milljarða sem er útgjaldaaukningin á næsta kjörtímabili og sem núverandi stjórnarmeirihluti, a.m.k. sumir hverjir hv. stjórnarþingmanna, virðist líta á sem aðgöngumiða sinn til að komast aftur inn í þennan sal eftir kosningar. Þetta gengur auðvitað gegn allri þeirri hugsun sem býr að baki því að hafa rammafjárlög.

Ég vil ítreka það að í hv. fjárlaganefnd höfum við fjallað um það meira og minna allt þetta kjörtímabil hversu mikilvægt er að breyta vinnubrögðunum við fjárlagagerð ríkisins til að ná þeim aga sem nauðsynlegur er í rekstri ríkisins og ná jöfnuði í ríkisfjármálunum.

Síðan er það kapítuli út af fyrir sig og ég veit ekki hvernig maður á að nálgast eða fjalla um það verkefni sem felst í því að það er samþykkt svokölluð ríkisfjármálastefna sem byggir á því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Við gerum okkur væntanlega öll grein fyrir því hversu mikilvægt verkefni það er því annars getum við lent í algerum ógöngum. Ef við náum ekki tökum á ríkisfjármálunum lendum við í algerum ógöngum. Þá getum við ekki einu sinni talað um að standa undir þeirri velferð sem við veitum núna og hvað þá að bæta í og hlúa að þeirri starfsemi, hvort sem það er heilbrigðisþjónustan eða velferðarkerfið í heild sinni. Ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum á núna er það mín skoðun að þá förum við fram af hengifluginu, þá förum við sömu leið og Grikkland. Við erum hægt og bítandi að feta okkur inn á þá braut með þeim aðgerðum sem við höfum verið að beita þar sem reynt er að halda skuldbindingum fyrir utan efnahag ríkissjóðs, þ.e. búa til eitthvert félag, lána því fyrir einhverri framkvæmd sem samkvæmt öllum umsögnum og er alveg fyrirséð að er ekki nokkur einasta leið að túlka sem ríkisframkvæmd. En henni er haldið fyrir utan bókhaldið og enn eina ferðina eru slík mál í meðförum þingsins.

Mér er algerlega um megn að átta mig á þessu. Þetta hefur verið í umræðunni og það er mikilvægt að það komi fram að þetta er ekki bara mín persónulega skoðun því þetta hefur verið skoðun allra hv. þingmanna í hv. fjárlaganefnd allt þetta kjörtímabil, alveg sama hverjir hafa setið í henni. Þótt þar hafi verið skipt út hv. þingmönnum hafa menn verið sammála um þessa hluti. Það hefur verið gott samstarf við fjármálaráðuneytið og starfsfólk þess og hæstv. fjármálaráðherra á hverjum tíma um mikilvægi þess að breyta þeim vinnubrögðum sem hafa því miður tíðkast allt of lengi.

Eitt af því er að breyta mörkuðu tekjunum og hafa stofnanir á fjárlagaliðum. Það bætir fjármálalega stjórn ríkisins, ríkisfjármálanna, það bætir starfsumhverfi fjárlaganefndar til að sinna eftirlitshlutverki með framkvæmd fjárlaga og síðast en ekki síst mundi þessi einföldun, sem er mjög skynsamleg að mínu mati, gera að verkum að við værum að fjalla um lokafjárlög eða ríkisreikning miklu fyrr en við erum að gera. Það er algerlega útilokað að vera að fjalla núna um lokafjárlög fyrir árið 2011, þau bíða umræðu í þinginu og við erum komin vel inn á árið 2013. Þó er það mál reyndar mjög snemma á ferðinni miðað við hvernig þetta hefur verið. En það blasir auðvitað við öllum sem eitthvað þekkja til reksturs að það er vonlaust að vera að klára og ganga frá uppgjöri á árinu 2011 þegar farið er að halla inn á mitt ár 2013. Þó skulum við halda því til haga að þetta hefur aldrei verið fyrr á ferðinni en núna. Það blasir því við hvernig þingið getur komið að hlutunum. Og eitt er að þegar lokafjárlög eru rædd er verið að samþykkja niðurstöðu rekstrarins og oft og tíðum er Alþingi að samþykkja fjárveitingar til verkefna sem löngu er búið að eyða. Það eru mýmörg dæmi um það.

Ég vil líka benda á að í umsögn okkar í fjárlaganefnd til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem hafði þetta mál til meðferðar er þessi skoðun okkar ítrekuð. Við tökum reyndar undir að mikilvægt sé að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins en ítrekum þá skoðun okkar að við sjáum ekki rökin fyrir því hvers vegna ekki er hægt að gera það með öðru fyrirkomulagi en mörkuðum tekjum.

Síðan hrekkur maður auðvitað við af því að við vitum að margar stofnanir sem hafa markaðar tekjur, þótt það eigi ekki við um Ríkisútvarpið í þessu tilfelli, hafa ekki þurft að taka á sig niðurskurð. Það eru staðreyndir. Margar hafa ekki þurft að taka á sig skerðingu í niðurskurðinum á þessu kjörtímabili.

Síðan langar mig að vekja athygli á einni grein eða viðtali sem var birt í Morgunblaðinu 6. mars. Þar er talað við Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara sem ræðir um niðurskurðinn gagnvart ákæruvaldinu. Ég vil, með leyfi forseta, vitna beint í greinina:

„Sigríður telur ekki loku fyrir það skotið að ákærendur muni forgangsraða málum sínum eftir því hvað þeir telja stjórnvöldum þóknanlegt. Hún tekur þó fram að engin merki þessa hafi sést, en telur möguleikann engu að síður fyrir hendi.“

Þetta er kannski áminning fyrir okkur og innlegg í þessa umræðu um Ríkisútvarpið, hvers vegna það eigi eitthvað annað að gilda um Ríkisútvarpið og sjálfstæði þess og þá spurningu hvort það er að færast nær hinni pólitísku ákvörðunartöku en til að mynda ákæruvaldið. Ég hef nefnt í þessu sambandi líka sjálfstæði Hæstaréttar til dæmis og embættis forseta Íslands. Nú þekkjum við átökin sem hafa verið milli hæstv. ríkisstjórnar og forseta Íslands. Hefur það verið þannig að fjárveitingar til forsetaembættisins hafi verið skornar niður meira en hjá öðrum? Nei, það hefur ekki verið þannig. Við verðum auðvitað að treysta því að stjórnmálamenn á hverjum tíma, ef þeim líkar ekki við það sem Ríkisútvarpið gerir, gangi ekki þannig fram að þeir láti það bitna á því. Ég trúi því ekki að aðhaldið sem fjölmiðlarnir hafa, sem er gríðarlega mikið, sé ekki nægjanlegt og einhverjir stjórnmálamenn sem koma til með að ráða för í meiri hluta á Alþingi geti komist upp með að láta óánægju sína bitna á því.

Síðast en ekki síst vil ég segja það fyrir mína parta að við erum með mörg mikilvæg málefni á dagskránni en það sem ég skil ekki, hef ekki skilið og mun ekki skilja og er auðvitað ekki hægt að útskýra, er að við erum að fjalla um hvert ríkisstjórnarfrumvarpið á fætur öðru sem rúmast ekki innan ríkisfjármálastefnunnar. Hér er til dæmis bent á það af hálfu fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að sú útgjaldaaukning sem reiknað er með í þessu frumvarpi rúmast ekki innan ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna spyr ég en hef ekki fengið svör við: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin er með eina stefnu í ríkisfjármálum um að ná tökum á þeim en síðan er hvert frumvarpið á fætur öðru lagt fram sem gengur einmitt þvert á þá stefnu? Það eru allir sammála um að sú stefna verði að gilda til að við missum ekki ríkisfjármálin í algera vitleysu því að þá er auðvitað mikil vá fyrir dyrum. Þá getum við ekki talað um að auka útgjöldin til velferðarmála heldur þurfum við að fara í mjög harkalegan niðurskurð. Það er reyndar hægt að fara í tekjuöflun líka, það er sjálfsagt að halda því til haga, en stefnan verður auðvitað að vera sú sama, ríkisfjármálastefnan og stefnan við framlagningu frumvarpa.