141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp vegna þess að hv. þingmaður nefndi í upphafi ræðu sinnar að hann hefði ætlað að koma í andsvör þegar ég flutti mína ræðu hér á undan og vildi fá útskýringar á því sem ég fór yfir sem sneri að mörkuðum tekjustofnum Ríkisútvarpsins. Fram kemur í umsögn með frumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 865 millj. kr. verði frumvarpið samþykkt. Það þýðir 27% aukningu frá og með árinu 2014. Þá hefur ekki verið tekið tillit til tveggja breytinga sem hafa orðið frá því fjárlagafrumvarpið var lagt fram og þar til fjárlögin voru samþykkt. Annars vegar var gjaldið lækkað um 70 millj. kr. vegna þess að verið var að leiðrétta það gagnvart því að mun færri lögaðilar greiddu gjaldið. Því til viðbótar tók efnahags- og viðskiptanefnd út úr forsendum fjárlagafrumvarpsins þau 4,6% sem gert var ráð fyrir vegna verðlagsáhrifa eða verðlagsuppbóta sem lækkaði útvarpsgjaldið um 190 millj. kr. Þetta voru þá um 260 millj. kr., þannig að það eru um 610 milljónir sem verða aukningin á ríkisútgjöldunum ef þetta frumvarp er samþykkt.

Til þess að halda öllu til haga og vera sanngjarn var metið að þær skorður sem Ríkisútvarpinu voru settar á auglýsingamarkaði, sem koma fram í frumvarpinu, mundu draga úr tekjum Ríkisútvarpsins í kringum 400 millj. kr. Menn hafa reyndar skiptar skoðanir á því, en hvað um það.

Nettóútgjöld til Ríkisútvarpsins eru í kringum 200 milljónir, en útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna samþykktar frumvarpsins eru 610 millj. kr.