141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar til að ræða það sem hann kom inn á og varðar landshlutaútvörpin. Ég heyri gjarnan, ekki síst frá landsbyggðarþingmönnum, að þeir vilja að Ríkisútvarpið setji niður landshlutastöðvar. Það er skiljanlegt markmið í sjálfu sér því að markmiðið er að auka dagskrárgerð og fréttir af landsbyggðinni, ekki síst fyrir okkur sem búum á suðvesturhorninu og öfugt.

Ég vil hins vegar í ljósi nýrrar tækni og fleiri þátta segja að ég efast um að rétta leiðin sé að gera kröfur til Ríkisútvarpsins um hvar það eigi að vera staðsett. Ég vil miklu frekar gera skýrar kröfur um efni og gæði og þá erum við aftur komin að því hvernig við viljum að Ríkisútvarpið forgangsraði innan sinna raða. Við viljum fá efni utan af landsbyggðinni. Ég vil benda á Stöð 2 með Kristján Má Unnarsson, Magnús Hlyn Hreiðarsson á Suðurlandi og Gísla Einarsson með þáttinn Landann í Ríkisútvarpinu sem allir eru til fyrirmyndar. (Forseti hringir.) Þetta er alveg hægt, (Forseti hringir.) menn þurfa ekki beinlínis að hafa staðsettar stöðvar á landsbyggðinni heldur er (Forseti hringir.) meginatriðið að mínu mati að gera skýra kröfu um efni af landinu öllu á öldum hljóðvakans.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)