141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um Ríkisútvarpið og eflaust var ekki vanþörf á henni.

Það sem vekur nokkra athygli þegar maður skoðar yfirbragðið á frumvarpinu er að raunverulega er verið að negla niður rekstrarformið eða þá starfsemi sem er í gangi núna og Ríkisútvarpið hefur með höndum. Ef við skoðum til að mynda 4. tölulið 3. gr. kemur fram að Ríkisútvarpið skuli dreifa efni til alls landsins og næstu miða, sem er ágætt, með a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring. Frumvarpshöfundar virðast hafa séð fyrir sér hvernig Ríkisútvarpið – sjónvarp er starfrækt í dag og ætlað sér að festa það í lög. Ég tel það þó nokkra skammsýni vegna þess að miklar tæknibreytingar eiga sér stað í heiminum núna og við getum sagt að fjölmiðlar stefni mjög frá því sem er í dag. Við sjáum til dæmis að sjónvarpsstöðvar, hefðbundnar sjónvarpsstöðvar eins og við þekkjum sem höfum horft á sjónvarp frá því að byrjað var að sjónvarpa á Íslandi getum við sagt, eiga mjög undir högg að sækja.

Netið og sjónvarpsmiðlun í gegnum netið er í raun og veru að yfirtaka hlutverk eða skipulag sjónvarps. Það er augljóst þegar hugsað er út í af hverju ætti að þurfa að bíða eftir þáttum sem eru sýndir í sjónvarpi, hvað sem þeir heita, Sex and the City eða eitthvað álíka. Afsakið, virðulegur forseti, að ég skuli sletta ensku en ég þekki ekki nafnið á þættinum á íslensku. Af hverju ætti maður að þurfa að bíða eftir einhverju sérstöku kvöldi meðan hægt er að velja í gegnum netið og annað slíkt?

Hitt er annað mál að sjónvarpsstöðvar sem byggja á íþróttakappleikjum, sem byggja á stanslausum fréttaútsendingum og sjónvarpsstöðvar sem byggja á því sem við gætum kallað útvarp með mynd virðast vera með sjónvarpsefni sem mun lifa af, það eru þær sjónvarpsstöðvar sem einbeita sér að því að lifa af. Ef fólk vill fylgjast með einhverri þáttaröð eða horfa á bíómynd eða annað slíkt fer það einfaldlega inn á veraldarvefinn, velur sér efnið sem það vill fylgjast með og horfir á það þegar því hentar.

Í 4. tölulið 3. gr. er ágætis brýning til Ríkisútvarpsins um að það skuli dreifa efni til alls landsins. Það er náttúrlega alls ekki þannig í dag. Ég kem úr kjördæmi þar sem er mikið af fjallvegum og getur verið langt frá endurvarpsstöðvum og Ríkisútvarpið næst ekki alls staðar. Oft líða einn til tveir klukkutímar þar sem maður nær ekki Ríkisútvarpinu. Svo undarlegt sem það virðist nær maður yfirleitt Bylgjunni á þeim stöðum. Það er einhvern veginn á skakk og skjön að Ríkisútvarpið sem er verið að segja að eigi að dreifa efni til alls landsins og næstu miða næst ekki meðan einkareknar stöðvar nást. Þær gegna því gríðarlega miklu öryggishlutverki rétt eins og Ríkisútvarpið.

Í II. kafla frumvarpsins er talað um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Það er greinilegt að mönnum liggur mikið á hjarta þegar kemur að hlutverki Ríkisútvarpsins vegna þess að óhætt er að segja að öllu sem mönnum dettur í hug sé hlaðið hér inn og hlutverk Ríkisútvarpsins ansi víðtækt.

Mín persónulega skoðun er að það sé í lagi að hafa einhvers konar vísi að ríkisútvarpi og þá er ég sérstaklega með það mikilvæga starf sem er unnið á Rás 1 í huga, þann þátt í starfsemi Ríkisútvarpsins þar sem menn hafa tekið það hlutverk sitt alvarlega að bjóða upp á dagskrá sem tæpast þrifist á einkastöðvunum. Sama er ekki að segja um sjónvarpið, það er engan veginn hægt að halda því fram að sjónvarpið bæti við þá þjónustu sem einkastöðvarnar bjóða upp á. Þeir sem fylgjast með sjónvarpi vita að einkastöðvarnar hafa verið með metnaðarfulla íslenska dagskrárgerð. Við myndum eflaust sjá meira af íslensku efni á einkareknu stöðvunum ef til að mynda allir þeir fjármunir sem fara í rekstur Ríkisútvarpsins, með sínum kostum og göllum, yrðu settir í einhvers konar sjóði og framleiðendur gætu sótt um styrki til að standa undir hluta af kostnaði við íslenska dagskrárgerð. Með því að fylgjast með annars vegar einkareknu fjölmiðlunum og hins vegar ríkisreknu fjölmiðlunum er engan veginn hægt að sjá að ríkisreknu fjölmiðlarnir hafi einhverja yfirburði hvað varðar íslenska dagskrárgerð. Við höfum meira að segja séð mjög vandað efni í einkareknu fjölmiðlunum.

Ég er á því að í 4. tölulið 3. gr. sé í lagi að það standi að Ríkisútvarpið skuli dreifa efni til alls landsins og ég kaupi algjörlega þau rök að af menningarlegum ástæðum og öryggisástæðum sé rétt að vera með ríkisútvarp. Ég er ósammála því að reka skuli að minnsta kosti tvær hljóðvarpsdagskrár og eina sjónvarpsdagskrá. Ég held að ein hljóðvarpsdagskrá sé nóg miðað við það umhverfi sem við sjáum í dag og miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast og breytast.

Eins og ég sagði áðan tel ég framtíðarsjónvarp vera fréttastöðvar og útvarpsstöðvar með mynd, gætum við sagt, eins og við sjáum þegar á Íslandi í dag þar sem sjónvarpsstöðvar eins ÍNN er raunverulega útvarp með mynd og sú stöð hefur ljómandi gott áhorf, slíkar stöðvar eiga örugglega eftir að þrífast vel í framtíðinni. Svo eru það náttúrlega útvarpsstöðvar með íþróttakappleikjum og ég held að algjörlega óhætt sé að segja að þótt þær séu einkareknar á það ekki að skemma eða særa viðkvæmt fólk.

Ef við skoðum aðeins 4. gr. þar sem segir að Ríkisútvarpið skuli stofna og reka dótturfélög sem eru að fullu leyti í eigu þess fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr. kemur mér spurning til hugar: Hvaða starfsemi gæti það verið? Það má einhvern veginn skilja þetta eins og um sé að ræða framleiðslustarfsemi, þ.e. fyrirtæki sem framleiðir efni til að birta og dreifa í Ríkisútvarpinu. Þá kemur mér til hugar breytingartillagan sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson gerðu við frumvarpið þar sem er lagt til að, með leyfi virðulegs forseta:

„Minnst 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skal varið til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum framleiðendum.“

Það finnst mér bráðgóð hugmynd. Með því væri jafnvel hægt að sleppa því að Ríkisútvarpið ræki dagskrárgerð í dótturfélögum og efnið væri einfaldlega keypt af óháðum framleiðendum. Ég tel söguna sýna, og eins sést það ef maður fylgist með sjónvarpi, að óháðir framleiðendur standa að gríðarlega vandaðri dagskrárframleiðsla og kvikmyndagerð og dagskrárgerð vex stöðugt ásmegin á Íslandi hvað varðar fagmennsku og annað slíkt. Við sjáum það til dæmis á því kvikmyndavori sem er núna á Íslandi að Íslendingar geta skammlaust, óháðir framleiðendum, framleitt mjög gott efni, bíómyndir, þætti og útvarpsefni.

Ég held að það sé bráðsniðug hugmynd hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni að um 20% af fjárveitingum til dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins fari til kaupa á innlendu efni af sjálfstæðum, óháðum framleiðendum.

Ef maður flettir í gegnum frumvarpið er það þó nokkuð mótað af þeim anda að stjórnmálamenn véla um málið, menn eru svolítið uppteknir af sjálfum sér. Það þarf að vera alveg á hreinu að hlutlægt sé greint frá hlutum og menn séu ekki háðir stjórnmálalega eða hugmyndafræðilega í vali á efni og í ritstjórnarákvörðunum. Reyndar tel ég 5. tölulið síðast í 3. gr. ágætan þar sem segir meðal annars að Ríkisútvarpið eigi að vera óháð hugmyndafræðilegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum. Ég held að það sé ágætis brýning til Ríkisútvarpsins vegna þess að mjög mikið virðist hafa vantað upp á það eins og við höfum t.d. séð í fréttaskýringaþáttum og umræðuþáttum í sjónvarpi þar sem vissar stjórnmálaskoðanir eða hugmyndafræðilegar nálganir fá mun meiri hljómgrunn en aðrar. Þess vegna er óhætt að segja að þetta sé kærkomin grein, að það skuli vera sett í lög að Ríkisútvarpið eigi að vera óhlutdrægt.