141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef stundum orðað það þannig að við sem stjórnmálamenn séum eins og dýrategund sem bregst við áreiti og áreitið sé að mörgu leyti fjölmiðlarnir þannig að þegar einhver gögn eða upplýsingar koma upp á yfirborðið, þ.e. umfjöllun um það, þá bregðumst við við. Það er kannski að hluta til vegna þess hvernig fyrirkomulagið er hérna á þingi. Það skortir sárlega alvörurannsóknarþjónustu hér, það skortir sárlega meiri stuðning við vinnu þingmanna. Við erum með frábært starfsfólk en það er bara allt of fáliðað. Þá treystum við að sama skapi oft veikburða fjölmiðlum til að koma upplýsingum á framfæri svo að við getum gert eitthvað í málinu. Stundum er þetta spurning um samspil. Við leggjum oft fram fyrirspurnir á þingi og fáum svör við þeim. Við eigum stjórnarskrárbundinn rétt á því að leggja fram fyrirspurnir og reynum þá oft að draga fram einhver ákveðin efni sem skipta máli.

Af því að hv. þingmaður talaði hér um þær hugmyndir sem ég nefndi, þ.e. hvernig væri hægt að styðja við einkarekna eða aðra fjölmiðla, þá hef ég gert athugasemdir við og haft áhyggjur af hugmynd um svona samkeppnissjóð því að þá ættu einmitt kjörnir fulltrúar eða einstaklingar sem við hefðum tilnefnt sæti í þeirri nefnd sem ætti að úthluta þessum fjármunum og taka ákvörðun um hvað teldist eðlilegt að fjalla um. Þess vegna hefði ég jafnvel talið að tryggingagjaldsleiðin, sem ég nefndi, væri betri að því leyti að þá væru það þeir sem hafa áhuga á að reka fjölmiðil sem gætu sett sína eigin ritstjórastefnu og alveg óháð því hver hún væri þá ættu þeir rétt á því að fá þennan stuðning. (Forseti hringir.) Það yrði hins vegar ekki þannig með svona samkeppnissjóð. (Forseti hringir.)