141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að þakka fyrir þá góðu og fjölbreyttu umræðu sem hefur átt sér stað hér í dag um þetta frumvarp um Ríkisútvarpið. Það er gott að finna að mönnum er ekki sama um þennan fjölmiðil. Hann er eins og ég nefndi í framsöguræðu minni hugsanlega mikilvægasta tækið til þess að tryggja öfluga, lýðræðislega umræðu í samfélaginu, fyrir utan menningarhlutverkið sem er mikilvægasta hlutverk sem Ríkisútvarpið hefur að rækja og við þurfum að standa vörð um.

Talsvert hefur verið fjallað um almannaþjónustuhlutverkið og hvort þetta frumvarp nái því tilsetta marki að skýra almannaþjónustuhlutverkið nægilega vel. Í frumvarpinu er verið að aðgreina þá starfsemi sem fellur undir almannaþjónustuhlutverkið annars vegar og hins vegar samkeppnisþættina. Það er að hluta til gert að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA. Við höfum dregið það fram í umræðunni að ekki hafi tíðkast í okkar heimsálfu að efni ríkisfjölmiðla séu settar sérstakar skorður. Það er áhugaverð umræða hvort við viljum fara þangað, hvort menn vilja þrengja þannig að Ríkisútvarpinu að tiltekið efni sem boðið hefur verið upp á undanfarna áratugi verði gert brottrækt úr dagskránni og einkafjölmiðlunum látið það eftir, t.d. erlent afþreyingarefni. Ég get tekið undir að það er ekki eitt af forgangsverkefnum RÚV að setja fjármunina fyrst og fremst í erlenda afþreyingu en ég hugsa að margir sem njóta þessa miðils í dag mundu sakna þess ef til dæmis vandað efni frá frændum okkar á Norðurlöndunum yrði gert brottrækt úr dagskrá Ríkisútvarpsins. Ég mundi hins vegar fagna því mjög ef við færum í gegnum dálítið djúpa umræðu einmitt um forgangsröðunina á komandi misserum og það kæmi fram í framtíðarbreytingum á lögunum um RÚV.

Menn hafa rætt um stjórnarfyrirkomulagið, að það sé flókin leið. Það er vissulega rétt að við höfum haft einfaldari leið undanfarna áratugi, þá að stjórnmálaflokkarnir velji beint fulltrúa sína í stjórn Ríkisútvarpsins. Ástæðan fyrir því að hér er lagt upp með að breyta því fyrirkomulagið er einmitt sú að við viljum stíga skref til þess að standa frekari vörð um faglegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins og skapa armslengdarfjarlægð frá hinu pólitíska valdi.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi að það væri mjög mikilvægt að Alþingi rækti í framtíðinni eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt með Ríkisútvarpinu. Ég vil taka undir þessi orð.

Við höfum farið yfir það í öllum umræðunum að í fyrsta lagi sé lagt upp með að útvarpsgjaldið renni óskipt til Ríkisútvarpsins sem markaður tekjustofn og það muni styrkja stöðu Ríkisútvarpsins en hins vegar muni takmarkanir á veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðnum draga úr tekjum þess. Það er einmitt í því efni sem sérstakur stuðningur við aðra fjölmiðla á þessum markaði birtist, einkamiðlana, svo að ég bregðist við þeim sjónarmiðum sem komu fram í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Það munar um það. Reiknað er með að tæpar 400 milljónir fari í að takmarka veru RÚV á auglýsingamarkaðnum, fjármunir sem munu færast frá RÚV yfir á einkamarkaðinn. Við vonumst til þess að það muni auka mjög og styrkja fjölbreytnina á þeim markaði.

Við deilum sannarlega þeirri skoðun að meira þurfi að gera í framhaldinu. Ég hef verið fylgjandi þeim áherslum sem hafa komið fram, m.a. frá Framsóknarflokknum um sérstakan stuðning við staðbundna miðla. Það er afar mikilvægur þáttur í því að standa vörð um flóruna, um fjölbreytnina á þessum markaði. Þar eru ýmsar leiðir mögulegar. Ég hef sjálfur haldið á lofti þeirri leið að stofna fjölmiðlasjóð sem mundi einbeita sér sérstaklega að því að styrkja rannsóknarblaðamennsku í landinu. Það væru viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og því ástandi sem hefur alltaf verið á íslenskum fjölmiðlamarkaði, hve veikir þeir eru. Innlendir fjölmiðlar eiga mjög erfitt með að eyða stórum fjármunum og miklum mannafla í að leggjast í rannsóknir í vikur eða jafnvel mánuði á tilteknum málum sem geta hins vegar skipt mjög miklu fyrir þjóðfélagsumræðuna og til að upplýsa almenning um það sem raunverulega gerist í pólitíkinni og í stjórnkerfinu. Það er hættulegt fyrir lýðræðið ef fjölmiðlarnir hafa ekki aðstæður til að sinna þessu hlutverki sínu.

Ég ítreka að það hefur verið gaman að fylgjast með þessari umræðu. Samstaðan hefur verið góð og vinnumórallinn, ef ég má nota það orð, í allsherjar- og menntamálanefnd, bæði á þessu þingi og því síðasta. Mikill skilningur og þekking hefur verið þar og þó að menn hafi ekki verið sammála um öll atriði þá hafa fulltrúar allra flokka lagt sig fram um að gera þetta mál betur úr garði. Fyrir það vil ég sannarlega þakka. Síðan vona ég að við getum sameinast um það áfram á komandi missirum og árum að standa vörð um Ríkisútvarpið eins og aðra fjölmiðla á þessum markaði á sama tíma og við þurfum að standa vaktina og tryggja að þær forsendur sem við leggjum með frumvarpinu, m.a. um takmarkanir á auglýsingamarkaðnum, standist raunverulega. Í þeim gögnum sem við höfum lagt fram í þessari málsmeðferð eru áætlanir um tekjuáhrif til hækkunar og lækkunar og í þeim mun ekki síst felast það aðhald sem Ríkisútvarpinu verður veitt frá þessari stofnun á komandi missirum.