141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[22:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, mál sem fjallar um rafrænar íbúakosningar.

Býsna góð samstaða hefur verið um málið í hv. nefnd og enginn ágreiningur um það þar. Málið fjallar í sem stystu máli um að sveitarfélögunum verði heimilað að þeirra eigin beiðni að láta fara fram íbúakosningar með rafrænum hætti eingöngu ef þeir kjósa svo. Frumvarpið snertir því öll sveitarfélög í landinu og markmið þess er að þróa tæki og aðferðir til að auðvelda sveitarfélögum að kanna vilja íbúanna með þessum hætti. Það getur átt við um vilja íbúanna til ýmiss konar mála, skipulagsmála, uppbyggingar á svæðum o.s.frv. Það hefur verið litið nokkuð til nágrannalandanna við gerð frumvarpsins, einkum Noregs, og reynslan þar verið skoðuð.

Umsagnaraðilar um málið hafa almennt verið mjög jákvæðir og þær umsagnir sem hafa borist verið einkar gagnlegar. Þær koma fyrst og fremst frá sveitarfélögum í landinu og ég ætla ekki að tíunda þær í smáatriðum í máli mínu. Ég vil þó nefna að vangaveltur komu fram í umsögn Dalvíkurbyggðar um hvort rétt væri að heimila öðrum en þeim sem hafa kosningarrétt til sveitarstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi að taka þátt í íbúakosningum og þá er sérstaklega horft til þeirra sem eru yngri en 18 ára, allt niður í 16 ára, og í einhverjum tilfellum til þeirra sem ekki hafa kosningarrétt vegna þess að þeir eru af erlendum uppruna.

Nefndin tekur í sjálfu sér undir þau sjónarmið en þar sem er í raun um að ræða tilraunaverkefni til skamms tíma, um er að ræða bráðabirgðaákvæði í lögunum, telur nefndin að svo stöddu ekki ástæðu til að hverfa frá hefðbundnum reglum um kosningaaldur, þ.e. 18 ár.

Það hefur verið rætt bæði innan nefndarinnar og nefnt í umsögnum að mikilvægt er að farið sé gaumgæfilega í gegnum það í vinnu ráðuneytisins hvernig auðkenni og persónuvernd verði tryggð í slíkum kosningum og nefndin leggur einmitt sérstaka áherslu á það í áliti sínu.

Ekki eru breytingartillögur við frumvarpið aðrar en þær sem snúa að gildistöku laganna. Undir álitið rita auk undirritaðs hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.