141. löggjafarþing — 100. fundur,  13. mars 2013.

framgangur þingsályktunar um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.

602. mál
[11:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek brýningarorðin frá hv. þingmanni en ég gengst ekki við því að ekkert hafi verið gert í málinu þó að það hafi ekki verið gert með þeim hætti sem hv. þingmaður óskar eftir. (Gripið fram í.) Þó að því sé vísað inn í áætlun sem er (Gripið fram í.) til 2020 þýðir ekki að það eigi að gera það árið 2020. Hún átti að vera komin í gildi núna og unglingamóttakan er eitt af þeim verkefnum sem þar eru tímasett og með fjárhagsáætlunum. Í framhaldi af áætluninni var talað um að skipaður yrði starfshópur. Ég viðurkenndi að sá starfshópur hefði mátt koma fyrr til starfa af því að tekið hefur tíma að vinna áætlunina og að tryggja hefði átt framhald verkefnisins strax. Ég tek til mín þann hluta athugasemdarinnar en ekki hinn hlutann.

Við verðum að passa okkur á því að tala okkur ekki niður hér. Það eru starfandi heilsueflandi framhaldsskólar um allt land. Allir framhaldsskólar eru þátttakendur í því verkefni. (Gripið fram í.) Þeir eiga m.a. að fást við kynheilbrigði. (Gripið fram í.) Nákvæmlega. Og það skiptir mjög miklu máli að við tölum það ekki niður. Þar er verið að vinna með nýjum hætti að snertingu við þennan hóp, þjónusta hann, skapa umræðu og svo framvegis. Aftur á móti höfum við ekki treyst okkur til þess í þessari erfiðu fjárhagsstöðu að fara með skólahjúkrunarfræðinga inn í alla framhaldsskólana. En ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni og hef gert það áður, að það er til athugunar og það þarf að vinna verkefni í þá veru í tengslum við framhaldsskólana.

Ég tek svo undir það sem komið hefur fram hjá öðrum þingmönnum, að við getum bent á ákveðna veikleika í heilbrigðiskerfinu. Það er akkúrat það sem vinna þarf með á næstu missirum. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi geðheilbrigðismálin. Við erum að vinna að endurskipulagningu á öldrunarmálum í tengslum við yfirfærsluna og svo framvegis, en hér beinum við sjónum að unga fólkinu og deilum þeirri skoðun að (Forseti hringir.) þar þarf að vinna betur. En það er ekkert sem segir að gera eigi það nákvæmlega eins og þingsályktunartillagan segir, en umræðan er mjög góð og til þess fallin að fylgja málinu eftir.